133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

textun.

30. mál
[19:22]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í nokkrum orðum lýsa yfir stuðningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta frumvarp til laga um textun. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er meðflutningsmaður að málinu. Þetta er þverpólitískt mál og væri mikil bót að því ef þetta yrði eitt af þeim málum sem Alþingi afgreiðir í vor.

Textun er ekki eingöngu fyrir heyrnarlausa, hún er ekki síður fyrir heyrnarskerta. Mikill fjöldi fullorðins fólks nýtur ekki til fulls dagskrárefnis og jafnvel þó að talað sé á íslensku. Textun er því ekki eingöngu fyrir erlend tungumál heldur fyrir íslenskt mál þannig að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti notið þess sama og þeir sem eru heyrandi. Þetta er réttlætismál. Þetta er jafnréttismál og væri okkur til sóma ef við afgreiddum frumvarpið á þessu þingi.