133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

stefna í loftslagsmálum.

[15:06]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hafa farið fram heilmiklar umræður um loftslagsmál í kjölfar niðurstöðu frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í París fyrir helgina. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið hefur mjög verið kallað eftir pólitískri forustu í loftslagsmálum, og það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að manni virðist nokkuð skorta upp á hana í hæstv. ríkisstjórn.

Samfylkingin á í þingskjölum tvær tillögur, tvö mál, sem komu fram strax í haust og lúta að loftslagsmálum. Hvorugt þeirra mála hefur komist á dagskrá þingsins og til umræðu. Annað þeirra lýtur að tillögum okkar um fagra Ísland, en þar er tekið sérstaklega á því að gera þurfi langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hitt þingmálið er um mikilvægi þess að Alþingi taki ákvörðun um hvernig íslenska ákvæðið samkvæmt Kyoto-bókuninni verði notað.

Eins og ég sagði er kallað eftir pólitískri forustu af hálfu ríkisstjórna heims og mörg ríki Norðurlanda og Evrópusambandið hafa lýst því yfir að stefna eigi að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 30% fram til 2020. Breska ríkisstjórnin segir um 60% til ársins 2050.

Hæstv. forsætisráðherra fer með pólitíska forustu í ríkisstjórninni en hann hefur ekki tjáð sig um þessi mál enn þá svo mér sé kunnugt. Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hver afstaða hans sé. Á hvern hátt hyggst hann beita sér í þessum málum meðan hann er í forustu fyrir ríkisstjórninni? Hvert verður samningsumboð þeirrar samninganefndar sem fer til Balí í haust til að fjalla um þessi mál. Mun það verða samningsmarkmið okkar að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 30% fram til 2020 eða mun áfram verða gert út á sérstöðu okkar og reynt að ná í viðbótarkvóta eins og helst hefur mátt skilja, jafnvel á hæstv. umhverfisráðherra, í þeirri fjölmiðlaumræðu sem farið hefur fram?