133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

stefna í loftslagsmálum.

[15:11]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur forsætisráðherra tekið þetta skakkt í sig því ég var ekki uppi með neinar ásakanir af einu eða neinu tagi. Ég spurði einfaldlega um hvernig forustu hann ætlaði að veita í þessum málaflokki sem forustumaður í ríkisstjórninni, hvort hann ætlaði að taka undir með Evrópuþjóðum og Norðurlandaþjóðum og þess vegna flokksbræðrum sínum, t.d. Cameron í Bretlandi, norska flokknum og umhverfisráðherra Danmerkur, í þá veru að draga eigi úr þessum 30% fram til 2020 eða hvort Íslendingar ætluðu aftur að fara fram með þeim hætti að gera út á sérstöðu sína og krefjast þess að þeir fái einhverja sérmeðferð í þessum málum. Um þetta spurði ég og ekki annað.

Ég tók líka eftir því í Fréttablaðinu í dag að sagt er að 45 ríki hafi lýst yfir stuðningi við að komið verði á fót alþjóðlegri stofnun sem hafi tæki til að beita refsiúrræðum gagnvart þeim þjóðum sem ekki undirgangast þær kröfur sem alþjóðasamfélagið gerir. Ég sá að Ísland er ekki meðal þeirra þjóða. Hvernig stendur á því að við tökum ekki þátt í slíku starfi?