133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

málefni Byrgisins og ráðherraábyrgð.

[15:19]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég var einfaldlega að reyna að fá sýn hæstv. forsætisráðherra á þessi lög um ráðherraábyrgð. Úr því að það er ekki hæstv. félagsmálaráðherra, og hér hefur forsætisráðherra fært rök fyrir því, segir jafnframt í 5. gr. í lögum um ráðherraábyrgð:

„Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni.“

Ég skil það þannig að allir þeir sem voru á þessum fundi fyrir fimm árum þegar málið kom á dagskrá beri þar af leiðandi ábyrgð og ég ítreka enn þá 11. gr.:

„Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi …“

Þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra, úr því að hann er búinn að vísa þessu frá félagsmálaráðherra: Ber ekki hæstv. forsætisráðherra ábyrgð á málinu? Er það þá ekki hans að segja af sér?