133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

málefni Byrgisins og ráðherraábyrgð.

[15:20]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég las bara einfaldlega úr lögunum og spurði um túlkun ráðherrans enda er hann löglærður en ekki ég. (Gripið fram í: Reyndar ekki.) Jæja, en ég skil það þannig að eftir þessu og 5. gr. beri í raun og veru hæstv. forsætisráðherra ábyrgð. Það er að sjálfsögðu það sem hann vildi ekki svara.

Varðandi það sem forsætisráðherra svaraði áðan um stjórnarandstöðuna — þær ákvarðanir sem stjórnarandstaðan tók á sínum tíma tók hún að hluta til vegna þess að hún var leynd gögnum. Það er akkúrat það sem ég er að tala um. Þessi gögn komu fyrir á fundi ráðherra sem m.a. hæstv. núverandi forsætisráðherra sat. Af hverju ber hann ekki ábyrgð í málinu? Samkvæmt þessum lögum, eins og ég skil þau, ber hæstv. forsætisráðherra ábyrgð. Ef hann ætlar að firra félagsmálaráðherra vegna örra stólaskipta hjá Framsóknarflokknum hlýtur það að vera sjálfur forsætisráðherra sem ber ábyrgð og á þess vegna að segja af sér.