133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

bæklingur um málefni aldraðra.

[15:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er nú um dæmalaust mál að ræða. Þetta er stormur í vatnsglasi. Það er búið að kalla eftir stefnumótun í öldrunarmálum um langt skeið og hún hefur verið unnin. Það er skylt að upplýsa um þá stefnumótun sem við erum að vinna eftir.

Þar kemur fram hvaða þjónustu við veitum og hvaða þjónustu við ætlum að leggja áherslu á gagnvart öldrunarmálunum á næstu missirum. Það er eðlilegt að koma því á framfæri í upplýsingariti við þá sem eiga að njóta þjónustunnar, þennan hagsmunahóp, og fagaðila.

Það er rangt sem hér kom fram að ekkert væri búið að gera. Það er búið að gera mjög mikið sem kemur fram í þessu upplýsingariti enda var það gefið út síðasta sumar.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra er alveg ljóst að við höfum fullar heimildir til að koma þessum upplýsingum á framfæri. En í lögunum stendur, með leyfi forseta:

„Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.“

Það kemur líka fram í hvað fjármagnið á að fara og þar segir að það geti farið til „annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu“. Það hafa verið svokölluð þróunarverkefni, rannsóknir og að koma upplýsingum á framfæri svo að eitthvað sé nefnt.

Það er alveg skýrt að það er heimilt að veita fé úr sjóðnum til annarra verkefna en byggingar öldrunarstofnana enda mjög mikilvægt að geta veitt styrki, t.d. til þróunarverkefna, rannsóknarverkefna og til að koma upplýsingum á framfæri til að efla öldrunarþjónustuna um allt land.

Þetta er allt í eðlilegum farvegi og alveg fráleitt að tala hér um að þetta sé persónulegt mál. Ég vil í krafti þess að vera ráðherra koma upplýsingum á framfæri og tel það mikilvægt.

Árin 1981–1992 var fé úr sjóðnum sett í uppbyggingu. Frá 1992 hefur samkvæmt lögum fé verið sett í rekstur en við höfum náð samkomulagi við aldraða um að á næstu tveimur árum fari rekstrarféð í uppbyggingu. Það verður samt áfram heimilt að veita fé til annarra verkefna sem stuðlað geta að uppbyggingu. (Gripið fram í.)