133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

3. fsp.

[15:28]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er einmitt um að ræða stefnumörkun og upplýsingar um þá stefnumörkun. Auðvitað er það sett fram til að efla öldrunarþjónustuna. Það blasir bara við. Þetta er sett fram í þágu aldraðra. Það er verið að koma á framfæri stefnumótun okkar.

Þegar búið er að vinna heildstæða stefnumótun, m.a. með því að ræða við hagsmunahópa eldri borgara — þetta er í takt við þær hugsanir og hugsjónir sem þeir hafa sem eru í þessum hagsmunahópi — tel ég mjög mikilvægt og eðlilegt að koma henni á framfæri. Það eru fullar heimildir til þess í gegnum sjóðinn, eins og lögin gera ráð fyrir.

Ég get bent á ýmislegt sem sjóðurinn hefur styrkt. Það eru alls kyns rannsóknir, útgáfa á upplýsingum og annað sem getur eflt öldrunarþjónustu. Sjóðurinn fer ekki bara í uppbyggingu á rýmum og í rekstur. Hann fer í meira. Hann hefur víðtækara hlutverk.