133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

bæklingur um málefni aldraðra.

[15:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er svo fráleitt að tala um þessar upplýsingar og það að koma þeim á framfæri með þessum hætti að ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara. Þetta upplýsingarit var gefið út síðasta sumar og þá var búið að vinna að stefnumótun í langan tíma. Þetta er stefnumótun sem byrjaði að gerjast áður en ég kom í ráðuneytið þannig að bæklingurinn er afrakstur margra ára vinnu, og ekki bara vinnu ráðuneytisins heldur líka vinnu sem hefur farið fram hjá hagsmunasamtökum.

Ég veit að hv. þingmaður hefur fengið sundurliðanir á þessum fjármunum mörg ár aftur í tímann. Ég get alveg lesið upp úr henni ef viðkomandi þingmaður vill. Ég á reyndar bara 10 sekúndur eftir í það en ég get tekið af handahófi árið 1999, þá fær félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Stefán Ólafsson, 700 þús. kr. í styrk. Öldrunarþjónusta Reykjavíkurborgar 1,5 millj. Ég tek 2003 af handahófi, Sólvellir, dvalarheimili, 2 millj. (Forseti hringir.) Svona er hægt að telja upp mjög lengi. Þetta liggur á borðum (Forseti hringir.) þingmanna af því að þetta eru opinber svör til þingmannsins og hafa komið fram áður.