133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um tekjudreifingu.

[15:32]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Á síðustu missirum og árum hefur umræða um fátækt og tekjudreifingu í samfélaginu verið afar fyrirferðarmikil í íslenskri pólitík. Nánast stöðugt koma fram fullyrðingar frá stjórnmálamönnum og háskólamönnum ýmsum um stóraukna misskiptingu og ójöfnuð á Íslandi sem haldið er fram að sé meiri hér á landi en annars staðar í hinum vestræna heimi. Fram til þessa hafa fjölmiðlar verið sérstaklega áhugasamir um að koma fullyrðingum um aukna fátækt og misskiptingu á framfæri við þjóðina og að mínu mati hefur verið dregin upp dökk mynd af stöðu þessara mála hér á landi, dekkri mynd en ástæða virðist til. Því finnst mér ástæða til að vekja athygli á mjög merkilegum niðurstöðum nýútkominnar skýrslu Hagstofu Íslands um lágtekjumörk og tekjudreifingu árin 2003 og 2004, niðurstöðum sem eru gjörólíkar þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af stöðu þessara mála upp á síðkastið, einkum af hálfu Stefáns Ólafssonar prófessors.

Í skýrslunni er greint frá lífskjararannsókn sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins sem einnig nær til EFTA-landanna. Í sem einföldustu máli leiðir skýrslan í ljós að tekjuskipting á Íslandi er mun jafnari en í flestum ríkjum Evrópu. Ísland er með öðrum orðum í fremstu röð á þessu sviði. Þessar niðurstöður eru stórmerkilegar, ekki síst þegar litið er til þess að þær byggja á samræmdri aðferðafræði Evrópusambandsins.

Það hefur hins vegar vakið athygli mína hversu lítið hefur farið fyrir fréttaflutningi hérlendis af þessum merkilegu niðurstöðum Hagstofunnar. Ekki hafa fjölmiðlar beinlínis þagað þegar menn hafa kynnt þveröfugar niðurstöður sínar um sama efni. Því finnst mér ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hver viðbrögð hans séu við niðurstöðum skýrslu Hagstofu Íslands (ÖS: Af hverju spyrðu ekki …?) því að ég fæ ekki betur séð, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en að í þessari skýrslu séu rökin slegin fullkomlega úr höndum þeirra sem stöðugt eru tilbúnir til að ráðast á ríkisstjórnina fyrir að auka ójöfnuð í samfélaginu.