133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:44]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeim orðum sem féllu hér varðandi fundarstjórn forseta og um þær fyrirspurnir sem hér hafa komið fram var fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson óskaði eftir að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra vegna þeirrar stórmerkilegu skýrslu sem kom frá Hagstofunni á föstudaginn. Ég held að hv. þingmenn, hæstv. forseti, ættu ekki að gera lítið úr sjálfum sér með því að kalla það starf og þær umræður sem fara fram í þinginu leikrit. Það er bara ekki við hæfi og ég óska eftir því, hæstv. forseti, að sérstaklega verði rætt við þingmanninn um að nota ekki slíkt orðalag um þau eðlilegu þingstörf, þær eðlilegu fyrirspurnir sem koma fram í þinginu.