133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Auðvitað var ekkert óeðlilegt við það að ég varpaði fram spurningu, mikilvægri spurningu, og ræddi hér mikilvæg mál um tekjudreifingu á Íslandi við hæstv. forsætisráðherra. Það er ekki hægt að halda því fram að slík umræða sé eitthvert leikrit. Þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum að ræða í þjóðþinginu og það gerði ég og hæstv. forsætisráðherra.

Ég vil benda hæstv. forseta á að komin er upp alvarleg staða í þinginu sem upplýst er hér fyrir alþjóð, að átt hefur sér stað mikill klofningur í stjórnarandstöðunni. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru nú komnir í hár saman og farnir að rífast yfir því hver hafi forgang á því að ræða um loftslagsmálin. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er andsnúin því að Samfylkingin ræði þau mál í þinginu og kvartar undan því. Ég held að ráð væri, frú forseti, að þú mundir fresta fundi svo að stjórnarandstaðan gæti fengið sér tíu dropa af kaffi og ráðið ráðum sínum vegna þess að það er alveg ljóst af þessari umræðu að hún er ekki jafnsameinuð og menn úr stjórnarandstöðuflokkunum vilja vera láta. (Gripið fram í.)