133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þingsköp heimila hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að koma hingað í stólinn við ýmis tækifæri. Við það verður að una því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur verið kjörinn á þing.

Rétt er hins vegar, forseti, að Arnbjörgu Sveinsdóttur, hv. þingmanni og formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem er með ábendingar um hvað forseti skuli benda einstökum mönnum á, sé bent á að halda agavaldi yfir sínu fólki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og vera ekki að skipta sér af öðrum á þinginu. Það leikrit, sá skopleikur sem hér fór fram áðan þar sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór með þjálfaðar spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra sem hæstv. forsætisráðherra síðan svaraði með þjálfuðum hætti undir leikstjórn Arnbjargar Sveinsdóttur, vona ég, var hins vegar ekki þinginu til sóma, sérstaklega vegna þess að formið leyfir ekki þátttöku annarra eins og fram kom áðan, í þessum umræðum og er því til lítils fyrir hv. þingmann og honum til skammar að hrópa hér út í salinn: Hvað segir þessi, hvað segir hinn? vegna þess að hann kemst ekki að í umræðunni.

Ég vildi benda á þetta um leið og ég ítreka að þessi liður á dagskránni er auðvitað fyrst og fremst til þess að ráðherrar svari fyrir þau mál sem þingmenn vilja heyra um en ekki til þess að fram fari umræður sem eiga betur heima í þingflokksherbergjum og hinum reykfylltu bakherbergjum Sjálfstæðisflokksins hér og annars staðar, og ekki lítil leikrit sem stjórnarliðar setja upp sjálfum sér til ánægju, hressingar og aukavinnu.