133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Koma bandarísks hers til Íslands á vordögum 1951 var ákaflega umdeildur atburður. Þá gengu menn þvert á svardaga um að á Íslandi skyldi aldrei vera erlendur her á friðartímum. Alþingi var ekki kallað saman í tengslum við gerð herverndarsamningsins og kom fyrst að því máli í október haustið eftir.

Atburðarásin var á þá leið að 5. maí er skrifað á laun undir samninginn og aðfaranótt 7. maí kemur herinn til landsins og það er fyrst á þeim degi sem þjóðin fær að vita með fréttatilkynningu að erlendur her sé kominn í landið. Herverndarsamningnum var gefin lagastoð með bráðabirgðalögum 24. maí og það er fyrst í október sem Alþingi tekur hann til umfjöllunar.

Þetta var nógu slæmt þótt ekki bættist það við sem nú liggur fyrir, að á bak við herverndarsamninginn voru gerðir leynisamningar sem Alþingi og þjóð voru leynd í meira en hálfa öld að því er best verður séð eingöngu af pólitískum ástæðum. Með öðrum orðum var samið um allt annað á bak við tjöldin og gengið mun lengra í afsali og kvöðum á íslenskt land og landhelgi, og íslenskum lögum og íslenskri stjórnskipan var vikið lengra til hliðar með leynisamningum en gert er í svokölluðum varnarsamningi sjálfum.

Þetta er grafalvarlegur gjörningur, það hljóta allir að sjá þegar af þessari ástæðu gengið er með öllu fram hjá Alþingi og röngum upplýsingum haldið að þjóðinni um þessi mál í meira en hálfa öld. Samráð við utanríkismálanefnd Alþingis er að sjálfsögðu algjörlega hunsað sem og Alþingi sjálft og það má í raun segja að Alþingi sé haft að fífli í öll þessi ár svo ekki sé nú talað um að ákvæðin um eðlilegt samráð um þessa hluti eru þar af leiðandi margbrotin. Öllu alvarlegra er þó að í leyniviðaukunum er fólgið beint afsal og beinar kvaðir á íslenskt land og íslenskt yfirráðasvæði, og stjórnskipan og lögum er vikið til hliðar. Í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins“ — þ.e. les utanríkisráðherra — „gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Slíkt samþykki Alþingis kom aldrei til og liggur ekki enn fyrir varðandi þessa samninga sem voru endurnýjaðir 29. september í haust að langmestu leyti. Því er óhjákvæmilegt að spyrja ýmissa spurninga, virðulegur forseti, um stöðu þessara viðauka, stjórnskipulega, lagalega og þjóðréttarlega, og gjörninginn sem fór fram 7. maí 1951 og 29. september 2006. (HBl: 25. júlí …)

Ég spyr þar af leiðandi í fyrsta lagi: Hverju sætir að utanríkismálanefnd Alþingis og þjóðin voru áfram leynd tilvist leyniviðaukanna þegar ríkisstjórnin kynnti niðurstöður viðræðna við Bandaríkjamenn um fyrirkomulag brottfarar hersins síðasta haust? Þessu þyrftu helst bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra að svara.

Í öðru lagi: Hvernig samrýmist undirritun þáverandi utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssonar, 8. maí 1951 og núverandi utanríkisráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, 29. september 2006 undir leyniviðaukana annars vegar og framlengingu ýmissa ákvæða þeirra hins vegar og án undangengins samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis og án fyrirvara um samþykki Alþingis a) 21. gr. stjórnarskrárinnar sem bannar afsal eða að kvaðir séu lagðar á land eða landhelgi, sem og að breytingar séu gerðar á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til, b) ákvæðum 24. gr. laga um þingsköp Alþingis sem mæla fyrir um skyldur ríkisstjórnar um samráð við utanríkismálanefnd.

Í þriðja lagi: Hvaða stjórnskipulega stöðu, þjóðréttarlegt eða lagalegt gildi telur ráðherra að leyniviðaukarnir hafi í dag og hafi haft í gegnum tíðina í ljósi þess að þeir eru gerðir án samráðs við, hvað þá að fengnu samþykki Alþingis, án þess að eiga sér stoð í sérstökum lögum og verandi, að því er best verður séð, í andstöðu við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Í fjórða lagi: Hvaða lagastoð hefur 2. og 3. málsl. 1. mgr. sérstaks fylgiskjals nr. 4 þar sem Bandaríkjamönnum er lofað því að „réttum íslenskum yfirvöldum“ verði gefin fyrirmæli um að afsala lögsögu í brotamálum og framselja bandaríska liðsmenn eða skyldulið þeirra þótt þeir hafi verið handteknir vegna brota sem beri undir íslenska lögsögu? Hversu oft hefur þessu ákvæði verið beitt og hafa hin réttu íslensku yfirvöld, þ.e. væntanlega lögregluyfirvöld, ætíð hlýtt slíkum fyrirmælum og farið þannig að því er virðist á svig við lög?

Í fimmta lagi: Hvaða áhrif hefur 8. gr. almenna viðaukans um að Bandaríkjamönnum sé ekki skylt að afhenda samningssvæði í sama ástandi og þau voru upphaflega haft á þá mengun sem hersetan skilur eftir sig og á möguleika landeigenda, sveitarfélaga og fleiri aðila til að ná rétti sínum í viðeigandi tilvikum?

Í sjötta lagi: Hvernig samrýmast ákvæði 2. gr. viðbætis um almenna flugstarfsemi, um rétt Bandaríkjamanna til að taka í sínar hendur á þeim tímabilum sem þeir telja nauðsynlegt fulla stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi, þar á meðal lendingum og aðflugsstjórn og flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli? Hvernig samrýmast þessi ákvæði stjórnskipan og lagaákvæðum á sviði flugmála?