133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[16:29]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Það er vissulega eðlilegt að þetta mál sé rætt í sölum Alþingis. Málið er í raun og veru tvískipt, annars vegar er um að ræða það sem stendur í þessum viðaukum, efni þeirra, og hins vegar þá staðreynd að þeir voru ekki birtir á sínum tíma. Hvort tveggja skiptir máli.

Ég tel að efni þessara viðauka sé í ljósi þess samnings sem við gerðum við Bandaríkjamenn 1951 í flestum atriðum eðlilegt og til samræmis við það sem annars staðar hefur tíðkast í samningum Bandaríkjamanna og annarra þjóða þar sem verið hafa herstöðvar.

Sú staðreynd að þessir viðaukar skyldu ekki birtir á sínum tíma endurspeglar það ástand sem hér ríkti og þann tíðaranda sem uppi var árið 1951 og fráleitt að gera því skóna að núverandi ríkisstjórn eða ábyrgðarmenn í landinu 56 árum síðar geti borið ábyrgð á því að þessir viðaukar voru ekki birtir.

Það verður að hafa það í huga, virðulegi forseti, að allt fyrirkomulag varna í ríkjum Atlantshafsbandalagsins á tímum kalda stríðsins hvíldi á þeirri meginforsendu að haldið skyldi uppi traustum og trúverðugum vörnum gegn innrás Varsjárbandalagsins. Ógnin sem blasti við lýðræðisríkjunum var augljós og stefna allra viðkomandi ríkisstjórna um víðtækan varnarviðbúnað með sameiginlegri yfirstjórn og samhæfðum aðgerðum naut almenns skilnings vestan hafs og austan.

Það er í umhverfi þessarar miklu spennu sem Íslendingar stíga það gæfuspor að gera tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin 1951. Samningurinn sjálfur er einfaldur um skyldur og kvaðir á grundvelli 5. gr. Atlantshafssáttmálans en styrkir mjög samningsbundið samstarf í NATO um öryggi Íslands.

Frekari útfærslur vegna viðveru bandarísks herliðs á Íslandi er að finna í þessum viðaukum sem nú hafa verið birtir. Þau ákvæði ber auðvitað að skoða í réttu sögulegu samhengi, nú þegar allar aðstæður eru gjörbreyttar. Hin upphaflega ógn er sem betur fer ekki lengur til staðar og bandaríska varnarliðið er farið héðan.

Þegar rætt er um tilurð varnarsamningsins frá 1951 ber að hafa það í huga að aðdragandinn að gerð hans var mjög stuttur og viðaukarnir undirritaðir skömmu síðar. Segja má að þeir hafi verið nánari útfærsla á einstökum þáttum samningsins og varðað ýmis hagnýt atriði sem eru forsenda eðlilegrar starfsemi herliðs á landsvæði annars bandalagsríkis. Að mestu leyti má segja að þessir viðaukar séu ígildi þess sem í áranna rás varð eins konar net tvíhliða og marghliða samnings á milli NATO-ríkja um stöðu erlends herliðs í gistiríki.

Mér er ekki ljóst nú á árinu 2007 af hverju íslensk og bandarísk stjórnvöld töldu fyrir 56 árum nauðsynlegt að halda þessum viðaukum leyndum en eins og endranær þegar fjallað er um löngu liðna atburði verður að gæta að tíðarandanum og aðstæðum. Séð frá sjónarhóli samtíma okkar og með hliðsjón af viðteknum viðbúnaði víðast hvar í heiminum er ekkert í viðaukunum að mínum dómi sem þarf að halda leyndu. En það hefur augljóslega horft öðruvísi við þeim sem stóðu að gerð varnarsamningsins og á þeim tíma var að sjálfsögðu engum kunnugt um að það yrði nauðsynlegt að hafa erlent varnarlið í landinu í marga áratugi.

Þrátt fyrir dvöl hlutfallslega fjölmenns herliðs á Íslandi í síðari heimsstyrjöld var íslensk stjórnsýsla sjö árum eftir lýðveldisstofnun óvön samskiptum við herafla á friðartímum, ólíkt því sem tíðkaðist í nágrannaríkjunum sem höfðu eigin her og mörg hver erlendar herstöðvar.

Það sem kann að hafa verið íslenskum almenningi framandi þótti bandamönnum okkar sjálfsagt og eðlilegt og í raun forsenda þess að hægt væri að verja landið. Hnökralaus framkvæmd varnarsamningsins og sú gæfa að aldrei kom til stríðsátaka olli því að mjög lítið reyndi á þessa viðauka og í sumum tilvikum aldrei. Nú, eftir að varnarliðið er farið héðan, er auðvitað stór hluti þeirra úreltur.

Það má leiða líkur að því að hugsanleg endurskoðun og birting hafi ekki orðið forgangsatriði í seinni tíð vegna þess að ekki hafði á þessi atriði reynt í nokkrum mæli. En í tengslum við gerð samningsins um brottför varnarliðsins og skil á tilteknum varnarsvæðum í fyrrahaust sömdu íslensk og bandarísk stjórnvöld um gerð breytinga á umræddum viðaukum eins og hæstv. utanríkisráðherra gat um. Þær breytingar byggjast á varnarsamningnum sem er auðvitað tvíhliða milliríkjasamningur sem virðir fullveldi beggja ríkja en breytingarnar fólust m.a. í því að setja inn skýrari fyrirvara um samþykki íslenskra stjórnvalda við framkvæmdinni þar sem þess var talin þörf.

Við lok þessara viðræðna um varnarsamstarfið síðasta haust urðu báðir aðilar sammála um að aflétta leynd af viðaukunum sem gerðir voru 1951 og þeim sem nú eru í gildi. Af Íslands hálfu var lögð á það áhersla að þetta yrði gert þá strax, um leið og samkomulagið var kynnt, en bandarískar reglur sem fela í sér tímafreka málsmeðferð ollu því að endanleg afgreiðsla bandarískra stjórnvalda fékkst ekki fyrr en 11. janúar.

Það er ljóst að við brottför varnarliðsins minnka líkurnar á framkvæmd þessara viðauka jafnvel enn meir. Engu að síður er með tilliti til varnarsamningsins og aðildarinnar að NATO nauðsynlegt að bandalagsríki okkar viti nákvæmlega réttarstöðu herliðs sem þau kunna einhvern tímann í framtíðinni að senda til Íslands.