133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[17:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Jæja, menn fara nú að gerast glaðir í þessum umræðum. Það væri ágætt út af fyrir sig ef við værum ekki að ræða grafalvarlegt mál. Alvarleikinn í þessu máli er fyrst og fremst sá að við upplifum það enn um sinn að fá ekki að vita um þá samninga sem gerðir hafa verið. Hæstv. utanríkisráðherra sagði, þegar hún upplýsti að hún teldi ástæðu til að aflétta leynd af þessum gömlu samningum ásamt því að málefni fortíðarinnar verði gerð upp og leynd aflétt: En að sjálfsögðu er ekki hægt að upplýsa allt er varðar varnir landsins.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra: Er það virkilega svo að áfram fái utanríkismálanefnd Alþingis ekki upplýsingar um hvað fer fram? Erum við virkilega að ræða þessi mál undir þeim formerkjum að utanríkismálanefnd fái ekki réttar upplýsingar, trúnaðarnefnd Alþingis? Það er ekki hægt að ráða annað í þá umræðu sem hér hefur farið fram en að svo sé.

Það er náttúrlega ákaflega dapurlegt, hæstv. forseti, þegar menn upplýsa núna um eitthvað sem gerðist fyrir 50 árum og batt okkur ýmsum böndum sem við höfðum ekki hugmynd um, íslenska þjóðin, eins og að herinn gæti yfirtekið allt og stöðvað allt almennt flug frá landinu, að herinn gæti tekið ákveðin landsvæði undir sína stjórn o.s.frv., eins og kemur fram í þessum viðaukum, að herinn geti mætt hér og kortlagt haf og land og skoðað farartæki án þess að Íslendingar hafi hugmynd um það.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra að lokum: Eru svona vinnubrögð enn viðhöfð? (Forseti hringir.) Af hverju er utanríkismálanefnd ekki upplýst um þetta í trúnaði?