133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

leynisamningar með varnarsamningnum 1951.

[17:11]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr hvort gerð og undirritun umræddra leyniviðauka standist ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar. Það er vissulega álitaefni sem eðlilegt er að ræða, ekki síst í ljósi þess að skammt er síðan leynd var aflétt af þeim. Ég kýs að fjölyrða ekki um þetta atriði enda er það fyrst og fremst lögfræðilegt álitaefni. Ég vil þó benda á það að þessir leyniviðaukar voru undirritaðir fyrir hönd Íslands af þáverandi utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssyni, sem var á þeim tíma einn virtasti og færasti stjórnlagafræðingur þjóðarinnar.

Hv. þingmaður spyr um stjórnskipulegt gildi þessara leyniviðauka. Ég vísa í því sambandi til þess sem ég nefndi áðan varðandi túlkun á 21. gr. stjórnarskrárinnar. Ég vil jafnframt leggja áherslu á að varnarsamningnum hefur verið framfylgt af íslenskum stjórnvöldum í rúma hálfa öld og utanríkisráðherra hvers tíma virt viðaukana og lagt efni þeirra til grundvallar í samskiptum við varnarliðið og framkvæmd varnarsamningsins.

Hv. þingmaður spyr um þjóðréttarlegt gildi leyniviðaukanna. Því er fljótsvarað. Leyniviðaukarnir eru hluti af varnarsamningnum og þar af leiðandi hluti af gildandi þjóðréttarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna.

Hv. þingmaður spyr hversu oft sérstöku ákvæði fylgiskjals IV hafi verið beitt. Þetta ákvæði hefur gilt í samskiptum milli ríkjanna frá gerð varnarsamningsins og ég get ekki svarað um það hversu oft því hefur verið beitt.

Hv. þingmaður spyr um stöðu ákvæðis 2. gr. viðaukans um almenna flugstarfsemi gagnvart gildandi lögum og alþjóðasamningum. Því er til að svara að gerð var breyting á þessu ákvæði í samningi um breytingar á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá september 2006.

Hér má ekki gleyma því að hlutverk Keflavíkurflugvallar hefur ávallt verið tvíþætt. Annars vegar gegnir Keflavíkurflugvöllur lykilhlutverki í vörnum landsins (Forseti hringir.) og hins vegar er flugvöllurinn miðstöð alþjóðlegra flugsamgangna til og frá Íslandi.