133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[17:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja nákvæmlega á sama atriði og hv. síðasti ræðumaður endaði á. Einn aðalgallinn við frumvarpið er sá að það kemur a.m.k. fimm, sex árum of seint fram. Það er auðvitað margt sem maður hugleiðir þegar maður sér m.a. ákvæði sem þarft er og sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa í löggjöf af þessu tagi, og margt er kveðið á um í þessu frumvarpi, hversu glæfralegt það er í raun búið að vera allan þennan tíma að vera með þetta starfsfólk erlendis, jafnvel á átakasvæðum, án þess að nokkur lagastoð væri fyrir starfseminni.

Ég minnist þess frá upphafsárum þessarar starfsemi að ég spurði bæði í utanríkismálanefnd og eins í fyrirspurnum á Alþingi um jafnsjálfsagða hluti og ráðningarkjör, réttarstöðu og tryggingamál. Til dæmis þegar íslenskir friðargæsluliðar fóru að bera vopn í fyrsta sinn á erlendri grundu spurði ég að því hvort samið væri við þá sérstaklega vegna þess. Hvort þeir væru tryggðir með sérstökum hætti vegna áhættunnar, sem auðvitað er augljóslega allt önnur og meiri þegar um vopnaburð á átakasvæðum er að ræða en í borgaralegu starfi eins og þetta var áður. Svarið var nei. Ég óttast helst að svarið hafi bara verið það af því að menn hafi ekkert verið búnir að hugsa út í þetta. Farið var í þessi verkefni og fólk sent inn á ný svæði við nýjar aðstæður og það vopnað án þess að menn hafi í raun og veru hugsað neitt fyrir því sem þessu gæti fylgt.

Alvarlegast var auðvitað og er, að því marki sem það er enn við lýði, að mörkin gerðust mjög óljós á milli þess sem er borgaraleg starfsemi og hernaðarleg. Ég hef áður gagnrýnt það mjög harkalega og geri í sjálfu sér enn vegna þess að afstaða mín og míns flokks er sú að við Íslendingar eigum ekki að taka þátt í öðru en hreinum borgaralegum verkefnum. Við eigum ekkert erindi inn í verkefni sem eru í eðli sínu og í grunninn meira og minna hernaðarleg. Það eru næg verkefni annars staðar og það er næg þörf fyrir krafta okkar og fjármuni, og miklu meira en það, sem við getum lagt af mörkum í verkefnum sem ekki kalla á þessa sambúð við hernaðartengda starfsemi, vopnaburð og annað af því tagi. Þar eigum við og megum svo sannarlega láta til okkar taka. Það er vissulega fagnaðarefni að nú hefur verið uppi viss viðleitni til að mýkja ásýnd þessa starfs og senda breiðari hóp til starfa við fjölbreyttari verkefni og meira mannúðartengd verkefni. Því fagna ég.

Verkefnin af því tagi, guð minn góður, þau æpa á okkur úti um allan heim. Það þarf ekki sérstök átakasvæði eða fyrrum átakasvæði til þar sem Bandaríkjamenn hafa verið að taka til hendinni en þangað hafa menn helst verið að senda fólk að undanförnu, eins og kunnugt er, til að reyna að koma einhverju tauti við mál og byggja upp þar sem búið er að sprengja allt í tætlur og allt er í rjúkandi rúst, eins og á Balkanskaga, í Afganistan og ætli Írak verði svo ekki fljótlega fyrir valinu.

Ég ætla rétt að tæpa á gagnrýni minni á frumvarpið efnislega í örstuttu máli nú vegna þess að þetta er 1. umr. málsins og mér gefst kostur á því m.a. í utanríkismálanefnd að ræða það betur. Ég hefði viljað snúa áherslum við í 1. gr. frumvarpsins og byrja á d- og e-lið, ef ekki beinlínis fella a-, b- og c-lið brott, og að verkefni borgaralegra sérfræðinga sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði og mannúðar- og neyðaraðstoð við flóttafólk og fórnarlömb átaka náttúruhamfara væru upphafsliðirnir. Það væri útgangspunkturinn, á þetta væri lögð höfuðáhersla, og í raun að breyta a.m.k. orðalagi stafliða a, b og c þannig. Það mætti strax breyta ásýnd málsins með því að segja í 1. málslið 1. gr. að utanríkisráðuneytinu sé heimilt að taka þátt í alþjóðlegri friðargæslu og senda fólk til starfa við borgaraleg friðargæsluverkefni í því skyni o.s.frv. Að skjóta bara þarna inn orðinu borgaralegur og þá er það algerlega í gadda slegið að við erum að tala um það sem á erlendum málum er kallað „civil“. Við erum að tala um borgaralega starfsemi og við höldum henni skýrt aðgreindri frá öllu hernaðarlegu, enda erum við ekki með hermenn sem betur fer og ætlum ekki að vera með hermenn nema þá einstöku menn sem hefur lítið orðið ágengt með það hugsjónamál sitt að stofna her. Þannig ætlum við að halda því en við viljum leggja okkar af mörkum á þann hátt sem okkur er tamt og eðlilegt, þ.e. að senda starfsfólk, fagfólk á mismunandi sviðum, til borgaralegra verkefna erlendis.

Sama gildir þar af leiðandi um 2. gr. og klæðaburðinn. Mér finnst í rauninni að það ætti að henda því atriði út, nema menn vilji sauma einhverja sérstaka skólabúninga á allt það fólk sem starfar undir formerkjum friðargæslunnar. Hér eru enn leifar af því að dulbúa þetta fólk sem hálfgerða hermenn þótt kannski sé búið að draga úr áherslunni á strípurnar með því að tala þarna um einkennisklæðnað þar sem við á, með hliðsjón af skipulagi og eðli þess verkefnis sem sinnt er. Það er greinilega verið að bjóða upp á þann graut að blanda þessu starfi saman við hernaðarlega starfsemi, að senda menn inn í heri og jafnvel að íslenskir starfsmenn, erindrekar, sendimenn í þessu tilviki, beri yfirmannatitla hernaðarlegs eðlis og séu jafnvel ofurstar eins og var á Kabúl-flugvelli og gott ef ekki í Pristina í Kosovo líka. Aðspurt var svo svarað að menn fengju skalann lánaðan frá NATO þegar ég spurði á hvaða grundvelli tigninni væri útdeilt til Íslendinganna, hvort til væri í íslenska stjórnkerfinu einhver skali yfir það hvenær flugumferðarstjórar ættu að vera lautinantar eða ofurstar eða hvað annað. Nei, hann var fenginn að láni frá NATO. Menn sem eru menntaðir í því að stjórna flugvélum, friðsamlegri flugumferð uppi í loftinu, voru því allt í einu orðnir ofurstar og lautinantar og hvað það nú var.

Þetta sýnir hvers konar rugl þetta er. Aðalatriðið er auðvitað að við erum ekki með fólk sem hefur hlotið þjálfun til að bera vopn. Hið sorglega í málinu í heild sinni er það að friðargæslu í heiminum er sinnt af fólki sem er fyrst og fremst atvinnumenn í því að heyja stríð. Það er ekki öðrum til að dreifa vegna þess að alþjóðastofnanir á þessu sviði hafa ekki fengið stuðning alþjóðasamfélagsins til að koma sér upp sínum eigin sérþjálfuðu sveitum. Hvorki Sameinuðu þjóðirnar né stofnunin um öryggi og samvinnu í Evrópu eiga á að skipa sínum eigin sveitum. Þær verða því að reiða sig á að fá lánaða menn úr herjum þjóðríkja sem ekki hafa í grunninn fengið þjálfun til að sinna slíkum verkefnum.

Sumar þjóðir leggja að vísu mikið upp úr þessu starfi og þjálfa hermenn sína talsvert í því. Þar má nefna bæði Norðurlandaþjóðirnar og Indverja, sem eru geysilega stórir í friðargæslu í heiminum og veita sínu fólki umtalsverða skólun og þjálfun í því. Það á ekki við um ýmsa aðra. Bandarískir hermenn eru t.d. yfirleitt ekki með neina sérstaka þjálfun í því að gæta friðar heldur fyrst og fremst í því að heyja stríð og hafa auðvitað aðallega fengið æfingu í því að heyja stríð undanfarin ár eins og kunnugt er.

Þetta er ein brotalömin í þessu fyrirkomulagi. Auðvitað þyrfti að þjálfa upp sveitir sérhæfðs fólks með þekkingu á menningu og siðum og aðstæðum í viðkomandi heimshlutum sem væri sérþjálfað í að gæta friðar og reyna að koma á friði en ekki í grunninn menntað í því að bera vopn og drepa fólk.

Ég tek undir spurningar hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur varðandi 5. gr. Á mig leituðu sömu hugsanir. Hvernig standa íslenskir friðargæsluliðar að þessu leyti að vígi gagnvart lögsögu Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í Haag, eða heyra þeir ekki undir hann? Þar skiptir aftur máli og hlýtur að skipta miklu máli hvernig starfsemi þessi er flokkuð lagalega. Er þetta borgaraleg starfsemi þannig að hér sé ekki um að ræða hermenn heldur borgaralega starfsmenn og hvernig snýr þá refsirétturinn að þeim? Njóta þeir þar af leiðandi ekki verndar sem stríðsfangar ef þeir væru teknir sem slíkir á ófriðartímum á einhverjum svæðum, heldur væru þeir borgarar? Þetta eru lagaleg og lagatæknileg atriði sem þarf að fara vel yfir.

Hvað varðar 6. gr. þá held ég að það sé ákaflega vandasamt að búa um þá hluti sem þar er verið að fjalla um. Að sjálfsögðu viljum við að íslenskir friðargæsluliðar sem lenda í erfiðum aðstæðum fái sanngjarna meðhöndlun ef þeim verða á brot. Ef þeir verða t.d. fyrir því að verða manni eða mönnum að bana, bera vopn og lenda í slíkum aðstæðum, viljum við að sjálfsögðu að þeir fái sanngjarna málsmeðhöndlun og að brot þeirra séu dæmd á sanngjarnan hátt í ljósi þeirra aðstæðna sem viðkomandi mætti eða var staddur í. En við viljum að sjálfsögðu ekki gefa það á nokkurn hátt í skyn að við ætlum að létta eitthvað ábyrgð af mönnum eftir sem áður. Það verður að vera kristalklárt að ekki standi til að auka eitthvað olnbogarými manna við aðstæður af því tagi. Þess vegna er það orðalag mjög vandasamt þar sem segir: „Þegar metið er hvort íslenskur friðargæsluliði“ o.s.frv. „skal, honum til málsbóta, sérstaklega litið til þess hvort aðstæður hafi verið hættulegar eða til þess fallnar að vekja með honum óöryggi eða ugg og aðstæðna að öðru leyti.“

Þetta er mjög vandasamt orðalag, herra forseti. Hvert er verið að fara þarna? Verður þá a.m.k. ekki að vera algerlega jafnklárt að á mönnum hvíli við þessar aðstæður algerlega ótvíræðar skyldur til að uppfylla öll ákvæði mannúðarlaga, mannréttindasamninga, samninga sem varða meðferð óbreyttra borgara á stríðstímum, vernd óbreyttra borgara á stríðstímum sem og réttindi stríðsfanga?

Ég hefði viljað sjá að í 7. gr. væri ekki bara talað um þjóðréttarlegar reglur sem Ísland sé skuldbundið af. Mér er að vísu ljóst að í athugasemd við 7. gr. er það skýrt út m.a. sem alþjóðlegir samningar um mannréttindi og mannúð. (Gripið fram í.) Þá á það bara að standa þarna svo það sé jafnljóst að menn séu bundnir af slíkum ákvæðum og þau helstu talin upp, þannig að þetta gefi ekki tilefni til neinna vangaveltna af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki annað að mér en að mönnum gangi gott til, að það sé góður hugur á bak við orðalag frumvarpsins, en það þarf að fara mjög vandlega yfir þetta, því að ekki má það henda að Ísland setji sér löggjöf sem er að einhverju leyti umdeilanleg að þessu leyti.

Í 12. gr. er kveðið á um það að íslenskir friðargæsluliðar skuli vera líf-, sjúkra- og slysatryggðir á meðan ráðningarsamningur við þá er í gildi — og þó fyrr hefði verið og skárra væri það. Ég veit að vísu að þeir hafa verið það upp að vissu marki, en ég hef ástæðu til að ætla það, miðað við fyrri afskipti mín af þessum málum, að menn hafi ekki verið búnir að hugsa þá hluti alveg til enda og róa fyrir hverja vík í þeim málum þegar þessi starfsemi fór fyrst af stað, þó að hún eigi sér auðvitað langa forsögu í mjög afmörkuðum mæli. Það er ekkert nýtt að íslenskir starfsmenn hjálparstofnana og samtaka fari til starfa erlendis og í einhverjum mæli á vegum stjórnvalda, en frá því að friðargæslan sem slík var stofnuð, án laga þó en varð að sjálfstæðri einingu innan utanríkisráðuneytisins, og sérstaklega frá og með því að Íslendingar fóru beinlínis að fara sem hópur til starfa á átakasvæðum og bera vopn er náttúrlega algerlega ljóst að huga þarf að mjög vel að þessum hlutum.

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi eru, þó að það sé ekkert óskaplega mikið að vöxtum, allmörg atriði sem þarf að athuga vel. Ég er mjög hlynntur því að reynt verði að ljúka afgreiðslu þess og lögfesta það ef kostur er vegna þess að það er auðvitað nauðsynlegt að þessi starfsemi hvíli á traustum lagagrunni. En þá vil ég líka gjarnan sjá að á það reyni hvort ekki sé mögulegt að ná samstöðu um tilteknar breytingar á málinu. Þar teldi ég veigamest að taka af allan vafa um að starfsemi okkar og öll okkar þátttaka á þessu sviði verði á borgaralegum grunni. Reyndar bæti ég þá að lokum einu við, ég vil alveg tvímælalaust sjá koma inn í almenn ákvæði 1. gr. frumvarpsins einn staflið í viðbót þó að einhverjir af hinum dyttu þá út. Það vantar þarna inn að hægt sé að senda íslenska friðargæsluliða eða íslenskt friðaruppbyggingarlið til fyrirbyggjandi aðgerða.

Að sjálfsögðu eiga að vera þarna fyrirbyggjandi aðgerðir. Hvað er átt við með fyrirbyggjandi aðgerðum? Þar er átt við að takist um það samkomulag geti sérhæfðir starfsmenn, gjarnan á vegum einhverra stofnana eins og Sameinuðu þjóðanna eða stofnunarinnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, farið og reynt að aðstoða heimamenn á svæðum þar sem ófriðlega horfir en ekki þar sem er orðið stríð. Hvers vegna í ósköpunum skyldu menn ekki reyna að nota í þessu tilviki hugsunarhátt brunavarnanna en ekki bara hugsunarhátt slökkviliðsins? Það sem hefur verið að þróast talsvert í umræðu um þessi mál á alþjóðavettvangi að undanförnu er að færa verði til áherslurnar, það verði að reyna að aðstoða íbúa og þjóðir á svæðum þar sem greinilega er setið á púðurtunnu.

Hvers vegna í ósköpunum reyndu menn ekki á Balkanskaganum, í Kosovo, að nota tímann frá því að Júgóslavía leystist upp og fram til 1995 eða 1997, eða hvað það nú var þegar allt fór í bál og brand, með því að senda aðstoð í formi sérþjálfaðs fólks, í formi starfsmanna og fagfólks sem skortur var á á viðkomandi svæði, svo sem lækna, hjúkrunarfólk, lögregluþjóna og aðra slíka, og í formi fjárhagslegs stuðnings til að byggja upp stjórnsýslu og réttarfar til að reyna að fyrirbyggja að allt færi í bál og brand? Það sem menn mundu kalla upp á skandinavísku, og mikið hefur verið rætt í Norðurlandaráði þar sem ræðumaður starfar nú, „civil och förebyggande insatser“ eða „civil och förebyggande åtgärder“.

Ég held að við Íslendingar ættum að sjálfsögðu að reyna að vera í fararbroddi þessarar hugsunar í heiminum því að við munum seint skakka leikinn ef meiri háttar styrjaldarátök brjótast út. Við gætum kannski lagt okkar af mörkum með því að vera lýðræðisþjóð, smáþjóð sem enginn tortryggir og boðið aðstoð á svæðum þar sem er óstöðugleiki, þar sem hætta er á að átök brjótist út.

Menn hafa oft séð slíkar aðstæður fyrir mörgum árum áður, talað um að þar gæti allt farið í vitleysu en ekkert er gert. Auðvitað er oft erfitt að nálgast það vegna fullveldis og sjálfstæðis ríkja sem vilja kannski ekki þiggja aðstoð eða hleypa erlendum aðilum inn í landið við slíkar aðstæður. Ef maður horfir á þetta hreint praktískt og veltir fyrir sér hvernig hægt væri að reyna að stuðla að friðvænlegri heimi þá er í mínum huga enginn vafi á því að það verður að breyta aðferðafræðinni í grundvallaratriðum. Oft og tíðum snýst þetta um að gefa kúguðum og langþjáðum og hrjáðum hópum von. Von um betra líf, von um að friðurinn geti fært þeim betra líf en ekki stríð. Von sem gerir þeim kleift að komast að þeirri niðurstöðu að þeir þurfi ekki að grípa til vopna, heldur sé stuðningur í boði og skilningur alþjóðasamfélagsins á þörfum viðkomandi til að byggja sig upp, til að bæta sín lífskjör, til að styrkja innviði viðkomandi samfélags o.s.frv.

Þetta fellur allt undir friðsamlega, borgaralega og fyrirbyggjandi nálgun eða hugsun í þessum efnum. Það þarf að umskrifa þetta frumvarp þó nokkuð til að byggja inn í það þessa hugsun. Ég er alveg tilbúinn til að bjóða fram aðstoð mína í þeim efnum ef hún verður þegin, þó að ég hafi ýmislegt að gera núna á vormánuðum. Í öllu falli er ég þeirrar skoðunar að bæta mætti verulega þetta frumvarp með ekki mjög miklum efnisbreytingum í þessa veru. Vonandi getur orðið góð sátt um það að áherslur Íslands eigi að liggja á þessu sviði. Ekki skal standa á þeim sem hér stendur að leggja því lið að verði svo þá sé því jafnframt fylgt eftir með stórauknum fjármunum og miklu myndarlegra framlagi af Íslands hálfu á þessi sviði.