133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[17:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að gera þá játningu að ég hef aldrei fullkomlega sæst við íslensku friðargæsluna eftir atvikið í Chicken Street í Kabúl. Jafnan þegar friðargæslan er nefnd kemur upp í huga mér mynd af íslenskum, ungum, vöskum karlmönnum sem koma heim og fá móttöku eins og um hetjur væri að ræða og á brjósti sér báru áletrunina „Shit happens!“. Þetta er myndin sem gerir það að verkum að ég á óskaplega erfitt með að sættast á það hlutverk sem íslenska friðargæslan, a.m.k. á þeim tíma, tókst á hendur. Eins og reynslan sýndi var hún ekkert undir það búin, hvorki andlega né í ljósi þeirrar þjálfunar sem menn höfðu þá fengið.

Ég vil líka segja það núna — ég sagði það ekki þá af því að þetta voru viðkvæm augnablik — að mér fannst það dálítið ömurlegt þegar íslenskir ráðamenn ræddu þann atburð sem gerðist þar, þar sem ljóst var að ekki hafði verið fyllilega farið að reglum, og þökkuðu almættinu fyrir það — eins og ég gerði líka — að enginn Íslendingur hlaut skaða af eða beið bana. Enginn minntist þá, a.m.k. ekki af opinberri hálfu, á þá staðreynd að 12 ára afgönsk stúlka dó. Bandarísk blaðakona hlaut líka veruleg meiðsl.

Ég segi þetta, frú forseti, til að undirstrika það að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, og vonandi hæstv. ráðherra, um að Íslendingar eiga að leggja áherslu á þau störf sem þeir kunna. Íslendingar eru vopnlaus þjóð og þeir eru ekki vanir að fara með vopn og byssur. Af því stafar 6. gr. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að malda gegn áðan. Þar er sérstaklega gert ráð fyrir þeim möguleika að þeir sem starfa á átakasvæðum og bera vopn kunni við vissar aðstæður að bregðast við með óviðurkvæmilegum hætti sökum reynsluleysis, beinlínis vegna þess að okkur skortir her- og vopnahefð sem aðrar þjóðir hafa.

Þetta vildi ég sagt hafa um þetta. Ég er algjörlega sammála því sem hefur komið fram í starfi núverandi hæstv. utanríkisráðherra varðandi breyttar áherslur hjá friðargæslunni. Ég tel, eins og fram hefur komið hjá mönnum í dag sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, að við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á borgaraleg hjálparstörf, mannúðarstörf, eins og hæstv. ráðherra hefur gert með því að senda ljósmæður og starfsfólk úr heilbrigðisgeiranum. Það kunnum við og það eigum við að gera, það er lofsvert hjá ráðherranum að hafa gert það. Það var allt annar bragur á viðhorfum hennar til þess starfs en forvera hennar. Fyrir það ber a.m.k. að þakka Framsóknarflokknum. Ég segi það, herra forseti, af því að það er ekki mjög oft sem ég hrósa honum. (Utanrrh.: Gerist það?) Það gerist ítrekað, kannski er það vegna þess að sá sem hér stendur er tekinn að reskjast og hníga að aldri sem á grönum má sjá og hugsanlega meyrna. Hugsanlega er það líka vegna þess að hann má í rauninni ekkert aumt sjá.

Að því er varðaði þennan lið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umræðuefni og tók mönnum vara fyrir að samþykkja þá er ég algjörlega ósammála honum. Ég held að hluti af öryggistryggingunni sem þeir Íslendingar sem sinna starfi á vegum friðargæslunnar eigi að njóta sé einmitt lög af þessu tagi, þ.e. lög sem taka af allan vafa um það að ef Íslendingar asnast til að senda vopnaða menn á svæði sem eru þess eðlis að þeir ráða ekki við stöðuna og grípa með óviðurkvæmilegum hætti til ráða sem kunna að hafa miska í för með sér vegna þess að, svo að maður segi það á hreinni íslensku, þeir fara á taugum eða hafa ekki hina köldu rökhyggju og dómgreind til þess að bregðast við slíku, þá verðum við að bera afleiðingarnar af því.

Það vekur aðra spurningu hjá mér, herra forseti. Ef slíkt gerist eins og segir í 6. gr. að Íslendingur grípur við tilteknar aðstæður til aðgerða sem gera það að verkum að hann verður einhverjum að bana eða veldur lemstran og aðgerðir hans eru að dómi íslenskra stjórnvalda þess eðlis að hann hafi farið út fyrir þá grein hegningarlaganna sem sérstaklega er þar vísað til en í ljósi aðstæðna beri ekki að refsa honum fyrir það, hvað þá með þann sem hann kann að hafa valdið miska? Ef íslenskir dómstólar komast beinlínis að þeirri niðurstöðu að íslenskur maður hafi brugðist rangt við en það beri að taka tillit til aðstæðnanna en eftir liggja í valnum einhverjir liðnir eða lemstraðir, hver er þá ábyrgð íslenskra stjórnvalda?

Ég velti þessu upp, herra forseti, vegna þess að í frumvarpinu er réttilega tekið rösklega á með ákvæðum um líf- og slysatryggingu handa þeim sem starfa fyrir okkur, hvort heldur það er á starfstíma eða utan hans. Þá kem ég aftur að upphafi máls míns. Það lá alveg fyrir að a.m.k. Íslendingar báru vissa móralska ábyrgð á því sem henti þessa litlu afgönsku stúlku sem varð að umræðuefni í fjölmiðlum. Bárum við þá enga efnislega eða siðferðilega ábyrgð gagnvart þeirri fjölskyldu? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra ef hún getur svarað mér því: Greiddu Íslendingar með einhverjum hætti einhvers konar bætur fyrir það sem þar gerðist? Það vissu allir að það gerðist vegna þess að ekki var farið að settum reglum þó að við sem sátum þá í utanríkismálanefnd gerðum ekki mikið úr því.

Ég talaði sjálfur við menn sem voru á vettvangi í Afganistan og það var alveg ljóst í mínum huga eftir að þeim samtölum var lokið að pottur var brotinn varðandi eftirlit með starfsháttum þeirrar sveitar. Nú skil ég það svo hjá hæstv. ráðherra að áherslan sé töluvert önnur. Við munum vonandi í framtíðinni leggja miklu meiri áherslu á ýmiss konar hjálparstörf sem tengjast heilbrigðismálum og ég hef þegar lýst ánægju minni með það.

Það er eitt til viðbótar sem tengist þessu, herra forseti, sem mig langar að ræða. Það eru upplýsingar sem hafa komið fram á síðustu vikum um nýja eftirlits- eða greiningardeild á vegum ráðuneytisins. Ég spyr út í þetta vegna þess að ég innti hæstv. ráðherra þegar hún kom til fundar við utanríkismálanefnd eftir ýmsum þáttum sem tengjast þessu. Ég spurði hana m.a. út í kostnað og ég skildi það þá svo að hæstv. ráðherra hefði svarað mér með þeim hætti að sem svaraði eitt stöðugildi væri tengt þessari nýju greiningardeild. Í fréttum hefur hins vegar komið fram að það megi álíta að stöðugildin sem þetta varða séu þrjú til fjögur.

Nú vil ég í fyrsta lagi segja að ég dreg mjög í efa að það sé rétt að hafa slíka deild í utanríkisráðuneytinu og aðgreinda frá hinni nýju greiningardeild sem lögreglan er að starfrækja samkvæmt lögum sem samþykkt voru í fyrra. Ég geri mér grein fyrir að viðfangsefni lögreglunnar eru alls óskyld þeim sem eru að sinna þessu starfi fyrir utanríkisráðuneytið. Ég held að samt sem áður sé starfið eðlisskylt og ætti því að heyra saman.

Ég velti líka fyrir mér þörfinni á slíkri þjónustu. Jú, hún er fyrir hendi ef við sendum fólk sem starfar sem sérstakar sveitir eins og segja má um þá friðargæslusveit sem ég vísaði til í upphafi máls míns, sem starfaði sem ein heild og réð sér meira og minna sjálf en lauslega tengd við heri eða hjálparsveitir annarra þjóða. Ef um það er hins vegar að ræða að ráðuneytið fer inn á þá braut að nota ekki Íslendinga til slíkra starfa heldur fyrst og fremst þessara hefðbundnu borgaralegu hjálparstarfa er alveg ljóst að mínu mati að í fyrsta lagi er minni þörf á því greiningarstarfi sem þessari deild er ætlað að vinna og í öðru lagi finnst mér einboðið að slíkir starfsmann starfi sem hluti af stærri heild eins og reyndar í dag þar sem friðargæsluliðar okkar hafa verið innan norskra sveita og sveita Eystrasaltslandanna.

Þá spyr ég hins vegar sjálfan mig: Ef við erum partur af stærri erlendri liðsheild er alveg ljóst að þjóðirnar sem fara þar með forustu hljóta að vinna áhættugreiningar gagnvart viðkomandi svæðum. Hver er þá þörfin á því fyrir okkur að hafa deild hér heima í utanríkisráðuneytinu, þar sem kannski þrír til fjórir — það er töluvert á okkar íslenska mælikvarða — starfa? Er ekki um tvíverknað að ræða? Eru þeir ekki að greina áhættu á svæðum sem fyrir liggur að t.d. norska heröryggisþjónustan og hugsanlega þær sem starfa í Eystrasaltslöndunum, Lettlandi í þessu tilviki, hafa þegar gert? Er þetta ekki hreinn óþarfi, herra forseti? Það er spurning sem ég varpa til hæstv. utanríkisráðherra.

Mig langar þá líka til að spyrja hana að endingu hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að sú greiningardeild sé fyrst og fremst til til þess að sinna þörfum friðargæslunnar erlendis. Er kostnaðurinn við hana t.d. færður á reikning friðargæslunnar og tekinn með þegar við veltum upp þeim kostnaðartölum sem því tengjast? Þetta vildi ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra en í sjálfu sér get ég alveg látið mér nægja að verða mér úti um þessi svör í utanríkismálanefnd eða síðar hér í umræðunni ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör við þessu á takteinum.