133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

430. mál
[18:18]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34.

Í tillögunni er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipun 2004/109 mælir fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra og viðvarandi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað. Tilskipunin gerir ráð fyrir lágmarkssamræmingu ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu hvað varðar upplýsingagjöfina en einstökum ríkjum er þó heimilt að gera strangari kröfur.

Þær reglulegu upplýsingar sem útgefanda ber að gera opinberar samkvæmt tilskipuninni eru ársskýrsla, hálfsársuppgjör og skýrsla framkvæmdastjórnar. Viðvarandi upplýsingaskylda hvílir á útgefanda um breytingar á yfirráðum yfir verulegum eignarhluta og atkvæðisrétti. Að auki setur tilskipunin reglur um hvaða upplýsingar skuli vera aðgengilegar hluthöfum útgefenda verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað. Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í viðskiptaráðuneytinu.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.