133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:23]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004, um siglingavernd. Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið nokkra aðila á sinn fund. Jafnframt hafa þó nokkrar umsagnir um málið borist til nefndarinnar.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, í því skyni að innleiða í íslenskan rétt tilteknar gerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í XIII. viðauka samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Um er að ræða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 725/2004 frá 31. mars 2004 um aukið öryggi skipa og öruggari hafnaraðstöðu, reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 884/2005 frá 10. júní 2005 um verklagsreglur við framkvæmd skoðana framkvæmdastjórnarinnar á sviði siglingaverndar og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/65/EB frá 26. október 2005 um að efla hafnavernd. Helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. að gildissvið laganna er útvíkkað þannig að lögin taka nú einnig til farþegaskipa og flutningaskipa í innanlandssiglingum auk útgerða. Einnig er lagt til að Siglingastofnun Íslands geri áhættumat vegna siglinga innan íslensku efnahagslögsögunnar og Siglingaverndaráætlun Íslands. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að auka við heimildir Siglingastofnunar Íslands til að annast eftirlit með framkvæmd laganna. Siglingastofnun yrði m.a. heimill aðgangur að skipum, hafnarsvæðum, mannvirkjum, búnaði, gögnum og skjölum, eftir því sem telja má nauðsynlegt vegna eftirlitsins. Siglingastofnun hefði jafnframt heimildir til að bregðast við brotum á reglum um siglingavernd, t.d. með því að leggja farbann á skip. Þá eru lagðar til breytingar á gjaldtöku vegna innheimtu siglingaverndargjalds en í stað skylduákvæða er nú kveðið á um heimildarákvæði til töku gjalda.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Í 1. málsl. d-liðar 3. gr., 2. mgr. b-liðar 4. gr., 1. málsl. 3. mgr. b-liðar 4. gr. og 4. mgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til orðalagsbreytingar til að gæta samræmis við önnur ákvæði í núgildandi lögum um siglingavernd, nr. 50/2004.

2. Lagt er til að í 2. málsl. d-liðar 3. gr. frumvarpsins komi fram að fulltrúum Siglingastofnunar sé í þágu eftirlits með framkvæmd laganna heimill aðgangur að skipum, hafnarsvæðum, mannvirkjum, búnaði, gögnum og skjölum, eftir því sem telja má nauðsynlegt vegna eftirlitsins, án undangengins dómsúrskurðar. Með þessum hætti eru tekin af öll tvímæli um að Siglingastofnun þurfi ekki að afla dómsúrskurðar áður en stofnunin grípur til aðgerða á grundvelli ákvæðisins. Þetta fyrirkomulag uppfyllir skilyrði 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um heimilar takmarkanir á friðhelgi einkalífs.

3. Lagt er til að í 3. mgr. b-liðar 4. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að farbann fari að ákvæðum laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Í lögum um eftirlit með skipum er að finna ítarlegar málsmeðferðarreglur um farbann. Í lögunum er m.a. kveðið á um hverjir geti sett á farbann, tilkynningu um farbann, brottfall farbanns o.s.frv. Í þessu sambandi ber enn fremur að nefna að í 27. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, er tekið fram að um farbann fari að ákvæðum laga um eftirlit með skipum. Eðlilegt þykir að samræmdar reglur gildi að þessu leyti á sviði siglingamála.

4. Lagt er til að í 5. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að Siglingastofnun Íslands skuli hafa samráð við hafnaryfirvöld áður en stofnunin takmarkar aðgang að höfnum og hafnarsvæðum, umferð um þær og dvöl skipa í þeim, og bannar umgengni eða dvöl á slíkum svæðum. Eðlilegt þykir að Siglingastofnun hafi samráð við hlutaðeigandi hafnaryfirvöld áður en stofnunin grípur til slíkra íþyngjandi aðgerða. Í þessu sambandi ber hins vegar að hafa í huga að endanleg ákvörðun um aðgerðir skv. 5. gr. frumvarpsins er komin undir Siglingastofnun og geta hafnaryfirvöld því ekki komið í veg fyrir að gripið verði til aðgerða á grundvelli ákvæðisins. Heimild Siglingastofnunar skv. 5. gr. frumvarpsins gildir þegar talið er nauðsynlegt að grípa til framangreindra aðgerða vegna siglingaverndar. Þegar vástig er hækkað í höfnum eða skipum ákveður ríkislögreglustjóri hins vegar hvenær hann tekur við stjórn aðgerða samkvæmt verndaráætlun og almennum lögum um lögregluaðgerðir, sbr. 5. mgr. 4. gr. núgildandi laga um siglingavernd, nr. 50/2004. Rétt þykir að árétta að í slíkum tilvikum þarf ríkislögreglustjóri ekki að hafa samráð við viðkomandi hafnaryfirvöld.

5. Lagt er til að tilgreint verði nánar í 10. gr. frumvarpsins hvaða háttsemi sé refsiverð samkvæmt lögunum. Slík útfærsla er í samræmi við meginreglu refsiréttar um skýra og vel skilgreinda verknaðarlýsingu refsiákvæða. Þá er lagt til að fyrirsögn 10. gr. frumvarpsins verði breytt úr „viðurlög“ í „refsingar“, enda teljast sektir og fangelsi til refsinga í merkingu refsiréttar en ekki til viðurlaga.

6. Lagt er til að refsing fyrir brot á 7. gr. frumvarpsins um þagnarskyldu verði í samræmi við refsiramma 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um þagnarskyldu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Jóns Bjarnasonar áheyrnarfulltrúa nefndarinnar, er samþykk áliti þessu. Hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Hjálmar Árnason, Kristján L. Möller, Guðjón Hjörleifsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Jón Kristjánsson. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.