133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:43]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði nefnilega í fyrri ræðu sinni um að ríkisstjórnin hefði ekkert gert í þessum málum. Og þegar hann kom svo í andsvar við mig aftur þá vissi hann allt um þá þingsályktunartillögu sem var samþykkt. (Gripið fram í.) Stjórnarsinnar hafa verið að vinna í þessu máli.

En það best ég veit um störf nefndarinnar þá var einkum tvennt sem menn voru ósáttir við. Það var að setja þessar afmörkuðu siglingaleiðir, sem þýddi það að skip væru alltaf í ákveðinni fjarlægð frá landi, en það kallar á eitt vandamál. Það er sjálf Reykjanesröstin. Hana þekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson vel frá því hann var háseti á fiskiskipum. Það er mál manna og þekkja þeir sem sjómennsku hafa stundað, að í vondum veðrum er nauðsynlegt öryggisins vegna að fara sem allra næst landi, sérstaklega í Reykjanesröstinni.

En allt um það. Auðvitað hefði átt að vera búið að afgreiða þetta mál. En eftir því sem ég kemst næst hefur Siglingastofnun unnið mjög að athugun á sjólagi með ströndum fram og einkum við Reykjanes og gert ákveðnar tillögur um afmarkaðar siglingaleiðir. Hins vegar hafa hagsmunaaðilar í nefndinni, Landhelgisgæslan átti fulltrúa í nefndinni, en það voru aðrir, það voru hagsmunaaðilar kaupskipa og olíuskipa sem lögðust á störf nefndarinnar og þess vegna hefur ekkert frá henni komið, því miður.

Það er mjög leitt til þess að vita, eins og lýðræðislega er nú unnið af hinu háa Alþingi þegar verið er að leita eftir sem bestu samstarfi við aðila í mörgum hagsmunahópum, að þeir skuli geta haft þau áhrif að svona gagnmerkt mál, eins og (Forseti hringir.) afmarkaðar siglingaleiðir skipa meðfram ströndum landsins, skuli ekki hafa náð fram að ganga.