133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Þetta var mjög merkilegt sem hann sagði. Í fyrsta lagi staðfesti hann það sem ég hafði sagt í ræðu minni áðan að auðvitað hafa samgönguyfirvöld, þá tala ég um hin pólitísku, legið á liði sínu. Það kemur alveg skýrt fram og hv. þingmaður staðfestir það bókstaflega talað, hinn pólitíski ráðherra, hæstv. samgönguráðherra, hefur ekki haft dug í sér til að knýja þetta mál til lykta, þ.e. að láta framkvæma það sem samþykkt var af þinginu af hálfu hv. þingmanns.

Í öðru lagi staðfestir hv. þingmaður af hverju niðurstaðan var þessi. Jú. Hann segir það svart á hvítu að hagsmunaaðilar hafi verið í nefndinni sem lögðust gegn því að farið yrði að því sem ég veit, eins og hv. þingmaður, að var tillaga Landhelgisgæslunnar, þ.e. að jafnaði yrðu siglingaleiðir 50 sjómílur, held ég, frá ströndum, með ákveðnum undantekningum eftir sjólaginu. Og þeir komast bara upp með það. Hv. formaður samgöngunefndar staðfestir það að hæstv. samgönguráðherra sé svo aumur að hann leggist á hnén kylliflatur fyrir fyrirtækjum sem ekki tíma að taka á sig þann kostnað sem það felur í sér að sigla utar og fjær. Það kostar meira. Öryggið kostar.

En það er alveg ljóst samkvæmt því sem formaður samgöngunefndar segir að hæstv. ráðherra, og þar með Sjálfstæðisflokkurinn, ber auðvitað ábyrgð á því að ekki var ráðist í þetta. Er hugsanlegt að það kynni að hafa leitt til þess að ekki fór allt of vel? Hugsanlega ekki í dæminu af Wilson Muuga, en hugsanlega.

En í öllu falli er alveg ljóst hver vilji Landhelgisgæslunnar er, en ekki er farið að honum. Þó eru það þeir sem þekkja þetta best og bera öryggið mest fyrir brjósti. Það er dálítið dapurleg einkunn sem hæstv. samgönguráðherra fær hér hjá formanni samgöngunefndar.