133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[19:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum frá 1996, um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum. Það er tímabært að taka fyrir lög um tæknifrjóvgun því að, eins og hér hefur komið fram, voru lögin sett til að svara kalli tímans þegar tæknin hafði náð svo langt að hægt var að beita tæknifrjóvgun hér á landi. Lagaumgjörðin gerði árið 1996 ekki ráð fyrir þessum möguleika og því varð að setja lagaramma um tæknina.

Nokkru síðar eða tveimur árum síðar varð frekari framþróun þegar hægt var að einangra stofnfrumur úr fósturvísum. Þá upphófst nýr kafli og jafnframt var kallað eftir áframhaldandi breytingum á lagaramma til að hægt væri að nýta fósturvísa til stofnfrumurannsókna eins og vísindasamfélagið vissi að var mögulegt og menn voru farnir að stunda.

Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir frumkvæði hennar í þessu máli. Í tvígang hefur hv. þingmaður haft frumkvæði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um rannsóknir á fósturvísum, að Alþingi skipaði nefnd til þess að fara vel yfir öll álitamál í þessum efnum og koma svo með tillögur í framhaldi af því um hvaða lagarammi skuli vera utan um þessa nýju tækni, um rannsóknir á fósturvísum og aðra vísindavinnu sem því tengist.

Oft er það svo, hæstv. forseti, að við sem einstaklingar og þjóð köllum eftir tækniframförum og lækningu á sjúkdómum sem í dag teljast ólæknandi og vísindin hafa ekki neina meðferð við. En stundum, eins og í þessu tilfelli, er tæknin komin fram úr okkur, bæði sem einstaklingum og sem þjóð. Möguleikarnir eru meiri en þjóðin kann að vera tilbúin til að taka við eða tileinka sér. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem við þurfum að skoða vandlega. Það vekur siðferðilegar spurningar og í því verður að taka tillit til siðferðilegra gilda auk þess sem taka verður tillit til trúarlegra sjónarmiða.

Hæstv. ráðherra skipaði breiða og mannmarga nefnd til að koma að gerð frumvarpsins. Leitað hefur verið til margra aðila og umsagnir borist úr ýmsum áttum, m.a. frá sjúklingafélögum og trúfélögum. Ég tel að þrátt fyrir góða og ítarlega greinargerð með þessu frumvarpi, bæði útskýringar á því hvaða rannsóknir eigi að gera þá verði að kynna efnið á mannamáli þannig að almenningur skilji hvað rannsóknir á fósturvísum eru. Hvað eru stofnfrumur? Hvað eru vefjastofnfrumur? Hvað eru stofnfrumurannsóknir í raun og hvað er ekki heimilt að gera? Einræktun er t.d. algjörlega bönnuð með þessu frumvarpi.

Eftir sem áður fleygir tækninni fram. Samkvæmt fréttum frá því í janúar, ég hef ekki kafað sérstaklega í þær fréttir, hefur vísindamönnum tekist að nota frumur úr naflastreng nýbura og eins frumur úr legvatni, sem kemur við fæðingu, í sama tilgangi. Þar kunna að opnast enn frekari möguleikar á nýtingu á frumum án þess að það stangist á við þau siðferðilegu gildi sem nýting fósturvísa þykir gera. Við þurfum að skoða það við afgreiðslu málsins og fá staðfestingu á að slíkar frumur gætu gegnt þessu hlutverki.

Hæstv. forseti. Ég hvet til þess að í heilbrigðis- og trygginganefnd fari fram vönduð vinna. Hafi sú skýrsla sem kallað var eftir í þingsályktunartillögum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur ekki verið unnin þá þarf sú vinna að fara fram í heilbrigðis- og trygginganefnd. Þar verður að skoða siðferðileg og trúarleg sjónarmið sem ég tel að taka verði tillit til. Í máli sem þessu þarf að fara fram umræða úti í samfélaginu svo að fólk sé sátt við afgreiðslu málsins og sátt við það sem vísindasamfélagið vinnur að. Öll viljum við stuðla að möguleikum íslenskra vísindamanna til að stunda rannsóknir og finna hugsanlega leiðir til lækningar á erfiðum sjúkdómum, jafnvel banvænum sjúkdómum í dag. Eins viljum við aukna möguleika til lyfjafræðilegrar þróunar.

Við þurfum að finna þá leið sem Alþingi og þjóðin er sátt við en fara með gát.