133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[19:56]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum, afskaplega merkilegt frumvarp um merkilegt mál og mjög nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að ræða þetta mál vel og ég skil vel vísindamenn og lækna sem sjá í þessu mikla möguleika til rannsókna og lækninga. Ég ætla þó fyrst og fremst að fara yfir á hina hliðina, þ.e. að vara við því sem getur gerst. Mér finnst eðlilegt að menn skoði þá hlið ekki síður.

Við glasafrjóvgun er konan látin taka inn hormóna þannig að mörg egg koma niður í einu. Þau eru tínd upp og síðan eru þau blönduð sæði og til verða eftir atvikum ein, tvær eða allt upp í sex, sjö frumur sem eru frjóvgaðar. Þá kemur fyrsta skrefið, sem ég hef alltaf haft miklar efasemdir um, að úr þessum frumuhópi eru valdar sex eða sjö frumur sem allar, hver um sig, hafa full einkenni einstaklings. Kynið liggur fyrir í viðkomandi frumu, hvort það er karl eða kona, háraliturinn, augnliturinn, hæðin og greindin jafnvel — allir þeir eiginleikar sem við erfum eru í hverri frumu fyrir sig. Hver þeirra getur orðið einstaklingur að níu mánuðum liðnum ef hún fær til þess aðstæður. Sá sem stendur í glasafrjóvguninni velur, eins og bóndi í undaneldi, tvær til þrjár frumur úr — ég hef haft miklar efasemdir um þetta en menn verða auðvitað að gera eitthvað — og hann velur að sjálfsögðu lífvænlegustu frumuklasana.

Frumunum er síðan plantað í leg konunnar og þar verða til einn, tveir eða þrír einstaklingar, stundum verða það fjölburar eins og við þekkjum. Stundum gerist ekki neitt, en þeir hafa þá alla vega fengið sjens. Hinir fengu ekki sjens sem voru skildir eftir og heita eftir það umframfósturvísar. Þá má nota í ýmsum tilgangi, t.d. til þess að rækta upp og gera á þeim tilraunir o.s.frv. Reyndar eru sett á það tímamörk hvað megi gera það lengi.

Mér finnst þetta allt snerta þessa spurningu: Hvenær verður maðurinn til? Ég hef ekki fengið svar við því enn þá hvenær hann verður til. Hvenær er ákveðinn frumuklasi maður og hvenær ekki? Er það þegar hann festist í legið? Það gæti verið ágætisskilgreining. Er það eftir tólf vikur eins og nú er við fóstureyðingar? Það finnst mér slæm skilgreining. Er það þegar hann fæðist eins og sum trúarbrögð gera ráð fyrir eða á meðan hann hefur ekki neytt matar eins og miðað var við um útburð barna í ásatrú? Þetta varðar skilgreiningar á því hvenær maður verður maður og sjálfum finnst mér eiginlega bara tvær skilgreiningar koma til greina. Það er við samrunann, þá er kominn einstaklingur — ef mannlegu valdi er beitt til að hjálpa honum verður hann að manni ef honum er plantað í leg. Hins vegar mætti líka notast við þá skilgreiningu að maður verði til þegar fruman hefur fest í legvegginn.

Hættan við þetta er — við getum t.d. tekið einn af þessum frumuklösum og skipt honum í tvennt og þá eru komnir eineggja tvíburar. Við getum geymt annan þeirra, enginn vandi. Þegar það eru komnar átta frumur er enginn vandi að skipta þeim í tvennt og þá erum við komin með eineggja tvíbura. Við getum geymt annan þeirra og ef eitthvað kemur fyrir einstaklinginn síðar á ævinni erum við með varahluti í hann, tvíburabróður hans eða tvíburasystur eftir því hvort það er karl eða kona, því að náttúrlega er það sama kynið.

Við getum gert annað — upp koma alls konar siðferðileg vandamál. Við gætum tekið þennan fósturvísi og sett í barn móðurinnar og þá er amman orðin systir. Menn geta velt fyrir sér siðferðilegum vandamálum. Í Ástralíu kom upp það vandamál fyrir nokkrum árum að hjón fórust í flugslysi, moldrík, og höfðu skilið eftir sig erfðavísa í frysti. Og nú var spurningin: Ef þessir erfðavísar hefðu verið settir í leg einhverrar konu væru þá til orðnir moldríkir erfingjar? (Gripið fram í.) Já, já, en ég er bara að velta upp þeim vandamálum sem geta komið upp og eiga að koma inn í þessa umræðu.

Frumvarpið tekur ágætlega á þessu mörgu hverju og leysir sumt en ekki allt. Til dæmis er möguleikinn á því að hafa kjarnaflutning. Við kjarnaflutning verður til eineggja tvíburi þess sem á kjarnann sem fluttur er í stofnfrumuna. Það er eineggja tvíburi og má nota hann til að framleiða t.d. lifur eða nef, eða nánast hvað sem er, þegar vísindin verða komin nógu langt — þau eru ekki komin nógu langt enn þá en þau munu örugglega komast svo langt, þannig að ég er sem sagt einungis að benda á það sem getur komið upp.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég vænti þess að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd, sem fær þetta mál til umsagnar, fari mjög vendilega yfir það. Ég á sæti í þeirri nefnd þannig að ég mun taka þessa umræðu upp þar. Ég vænti þess að hún verði góð og að menn skoði bæði kosti læknisfræðinnar annars vegar, kosti þess að lækna fólk af alzheimer o.s.frv. og ákafann í það, og hins vegar gallana sem geta komið upp siðferðilega ef við förum yfir einhver mörk.

Þeim sem áhuga hafa á þessum málum ráðlegg ég að lesa bók sem kom út fyrir jólin og heitir: Á ég að gæta systur minnar? Þar er einmitt tekið á mjög athyglisverðan hátt á því þegar barn sem greinist með mikla sjúkdóma — ef foreldrarnir taka ákvörðun um að eignast einstofna barn, eins og barnið sem varð veikt, til að nota í varahluti.