133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[20:06]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki eftir því að hafa stöðvað þessa þingsályktunartillögu hafi ég haft það vald, ég vissi bara ekki af þessu valdi. (Gripið fram í.) Í þeirri þingsályktunartillögu var aðallega talað um kostina. Og mér fannst fara lítið fyrir umræðu um gallana eða siðferðileg álitamál og þess vegna vildi ég fá breytingu á þeirri tillögu þannig að jöfnum höndum yrði talað um kosti og galla. Í þessu frumvarpi til laga er afskaplega ítarlega farið í siðferðilegu vandamálin. Það má segja að öll greinargerðin sé meira og minna umfjöllun um siðferðilegu vandamálin og það er ég bara afskaplega ánægður með.

Svo vil ég benda hv. þingmanni á það að hér eru lögð fram frumvörp og þau fara til nefnda — til hvers? Til umfjöllunar. Nefndin á að fjalla um frumvarpið, hún á að fara í gegnum kosti og galla og gera á því breytingar ef á þarf að halda. Það er ekkert endanlegt sem kemur frá ráðherra, alls ekki. Ef það er eitthvað í þessu frumvarpi sem þarf að laga gerir nefndin það að sjálfsögðu ef henni sýnist svo og hún telur ástæðu til þannig að það er ekkert endanlegt sem kemur frá ráðherra.

Ég samþykkti þetta í mínum þingflokki með því fororði að þetta yrði skoðað að sjálfsögðu í nefndinni eins og öll önnur mál. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé tekið það ítarlega á siðferðilegu vandamálunum í greinargerðinni að það er allt annað en þessi þingsályktunartillaga sem var ekkert annað en eintómur ljómi yfir árangri læknisfræðinnar og hvað vísindamennirnir hefðu það gott með því að leika sér með stofnfrumur.