133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[20:07]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður orðinn bara jákvæðari fyrir þessu máli en hann var á síðustu þingum og skil ég ekki alveg hvað hefur breytt afstöðu hans til málsins. Ég veit ekki hvort hann hefur lesið greinargerðina sem var lögð fram á 132. löggjafarþingi með þessari tillögu til þingsályktunar þar sem sannarlega var farið yfir bæði kostina og gallana í málinu. Ef það hefði ekki verið nægjanlega mikið gert, að fara yfir kostina og gallana í þessari þingsályktun, gerði þingsályktunartillagan ekki neitt annað en að kalla eftir greinargerð um kosti og galla þess að fara þá leið að kanna nýtingu og geymslu stofnfrumna og fósturvísa til rannsókna og lækninga. Það var allt og sumt.

Þess vegna bjóst ég varla við því að hv. þingmaður yrði svona jákvæður fyrir frumvarpinu eins og virðist vera í þessum ræðustól hér. Guð láti gott á að vita, að hann fari þá ekki að þvælast mikið fyrir málinu í þingnefndinni. En hv. þingmaður hefur ekki lýst því hér hvað breytti afstöðu hans þegar hann kynnti sér þetta frumvarp. Hann hefur væntanlega farið yfir öll ákvæðin í því og efnisatriði og hann getur ekki einu sinni upplýst það hér hvort hann muni styðja málið óbreytt ef það skyldi verða afgreitt þannig úr þingnefndinni. Það var það sem mig fýsti að vita, virðulegi forseti, meðan við værum með málið hér við 1. umr.