133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[20:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kann ekki við orðalag eins og „þvælast fyrir“, ég bara kann ekki við það. Menn geta haft efasemdir um mál, menn mega hafa það og menn eiga að hafa það.

Til hvers höfum við þrjár umræður á Alþingi? Til hvers vísum við málum til nefnda? Hvers vegna senda nefndir mál til umsagnar? Það er til að fá dýpri skilning á þeim. Ég ætla mér ekkert að taka afstöðu hér og nú og geta afgreitt frumvarpið sem lög í kvöld, það stendur ekki til. Ég ætla mér að hlusta á þessa aðila alla saman, lækna jafnt sem siðfræðinga, og vísindamenn jafnt sem heimspekinga, áður en ég met hvort við séum að fara út á hála braut. Ég hef dálitlar efasemdir um stofnfrumur sem eru með frumuflutningi, ég hef dálitlar efasemdir um þær. Menn segja reyndar að það séu ekki lífvænlegar frumur en hvað gerist ef þær skyldu vera lífvænlegar? Ég vil fá skýringu á því. Það er ýmislegt sem er óskýrt enn þá. Til þess erum við að ræða málið. Það er ekki venjan að menn afgreiði mál sem lög eftir eina umræðu. Það er bara ekki til þess ætlast. Alþingi starfar sem umræðuvettvangur og ég ætla mér að taka afstöðu þegar allt málið liggur fyrir.

Mér finnst jákvætt við þetta frumvarp hve mikið er tekið á neikvæðu hlutunum og ég var á sínum tíma sammála þingsályktunartillögunni ef henni hefði verið breytt þannig að meira hefði verið rætt um efasemdirnar og siðferðilegu vandamálin. En þar var bara eða að mestu leyti talað um læknisfræðilegu kostina og hvað vísindamenn Íslendinga hefðu það þá gott ef þetta yrði samþykkt.