133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

úttekt á upptökuheimilum.

[13:36]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að taka þetta mál upp. Ég held að allir sem horfðu á umræddan þátt í gær og jafnframt í síðustu viku og lásu DV um helgina séu mjög slegnir. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða og þvílíka meðferð á börnum sem sennilega ekki nokkru foreldri bauð í grun, því að þessi börn sem eru fullorðin í dag áttu auðvitað foreldra og börn þeirra voru sett þarna í góðri trú á sínum tíma. Þær lýsingar sem komið hafa fram og sá níðingsskapur sem þessi hópur hefur orðið fyrir er yfirgengilegur. Við erum að tala um 100 börn, börn hafa aldrei verið sakhæf en samt leit þetta út eins og fangelsi.

Þess vegna finnst mér afar mikilvægt, og ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir það, að tekið sé mjög faglega á þessu máli, því að við þurfum auðvitað að gera opinbera rannsókn á því eins og Norðmenn og Svíar gerðu. Þetta hefur verið að koma fram alls staðar því að það var hugmyndafræði þeirra tíma að senda vandræðabörn í sveit, en það voru ekki aðeins vandræðabörn sem þarna voru á okkar vegum, þetta voru barnaverndarmál þar sem foreldrarnir áttu í vandræðum en ekki blessuð börnin. Þarna ægði öllu saman og úrræðin voru kannski fá. Ég held að það sé afar brýnt að við skoðum hvernig bæði Norðmenn og Svíar hafa farið að. Þar er búið að dæma mjög stórum hópi fólks um fimmtugt bætur vegna þess að þetta er fólk sem missti af lífinu, missti af menntun, missti af öllum tækifærum og er kannski hreinlega brotið, eins og við sáum mjög greinilega í þættinum í gær.

Við sjáum að við þurfum að skoða fortíðina þegar við athugum af hverju þessum einstaklingum vegnar ekki eins vel og öðrum. Við skulum hafa virðingu fyrir manneskjunni í fyrirrúmi í þessum málum.