133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta þingmál í 1. umr. Við eigum eftir að fá það til umfjöllunar í félagsmálanefnd og munum þar fara rækilega yfir það. Reyndar er það sprottið upp úr samstarfi verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda en starfshópur var skipaður í fyrravor til þess að fjalla um þetta efni.

Viðfangsefnið er mjög mikilvægt. Á Íslandi eru nú starfandi um 17 þús. launamenn af erlendum uppruna, um 9% af vinnumarkaðnum. Þessir erlendu launamenn hafa komið hingað á mismunandi forsendum, í mismunandi farvegi ef svo má segja. Í fyrsta lagi hafa þeir komið hingað til starfa á vegum starfsmannaleigna. Í annan stað hafa þeir komið einfaldlega á grundvelli samninga um hið Evrópska efnahagssvæði sem eiga að tryggja frítt flæði vinnuaflsins. Við minnumst þeirra deilna sem risu hér í fyrravor um hvort við ættum enn að beita fyrirvörum gagnvart nýaðildarríkjum Evrópusambandsins en fyrirvararnir voru í því fólgnir að launafólk frá þessum ríkjum fengi ekki aðgang til jafns við launafólk frá öðrum svæðum hins Evrópska efnahagssvæðis. Það varð að ráði að framlengja ekki þessa fyrirvara en jafnframt var því heitið að menn mundu freista þess að styrkja þau lög og þau úrræði sem eru fyrir hendi á íslenskum vinnumarkaði með það fyrir augum að tryggja að launafólkið nyti þeirra lágmarkssamninga sem eru í gildi á Íslandi. Samkvæmt íslenskum lögum ber að fylgja a.m.k. lágmarkssamningum.

Þriðji farvegurinn fyrir fólk sem vill koma hingað til lands er þegar starfsmenn erlendra fyrirtækja koma hingað og sinna verkefnum til lengri eða skemmri tíma. Þetta frumvarp fjallar um þá starfsmenn. Þetta tengist umræðunni um þjónustutilskipun Evrópusambandsins en eins og menn kann að reka minni til var eitt umdeildasta ákvæðið í þjónustutilskipuninni einmitt þess efnis eða a.m.k. í upprunalegum texta var gert ráð fyrir því að starfsmenn erlendra fyrirtækja gætu flust á milli landa á þeim kjörum sem voru við lýði í upprunalandinu, svokölluð upprunalandsregla. Þetta tókst að kveða niður og breyta þessu ákvæði í þjónustutilskipuninni og var það sigur hinnar evrópsku verkalýðshreyfingar að ná því fram.

Þetta frumvarp miðar að því að strengja þessi net með því að kveða skýrt á um það í lögum að lágmarkssamningar skuli gilda og ýmis lágmarksréttindi sem kveðið er á um í lögum, svo sem varðandi lög um orlof, fæðingarorlof og þar fram eftir götunum. Það er einnig vísað til laga um starfskjör launafólks frá 1980 þar sem kveðið er á um lágmarkslaun, vinnutíma, lágmarkshvíldartíma og fleira. Ég ætla ekki að fara að telja þetta allt saman upp en þetta er meginhugsunin að baki lögunum. Ég vil minna á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað lagt fram frumvörp á undanförnum missirum sem lúta að því að styrkja réttarstöðu launafólks sem hingað er komið í atvinnuleit.

Menn hafa staðnæmst nokkuð við þessar reglur, opnanir og girðingar sem hafa verið hér um íslenska vinnumarkaðinn en gleymt kannski aðalatriðinu sem er sú mikla eftirspurn sem hér er eftir erlendu vinnuafli. Það er hún sem ræður því að hingað til lands hefur komið fólk í stríðum straumi. Þar tel ég að Íslendingar kunni að fara of geyst á stundum með því að þenja efnahagskerfið til hins ýtrasta, ráðast í mjög mannfrekar framkvæmdir á sama tíma í stað þess að fara hægar og jafnar í hlutina. Það held ég að sé hyggilegra þegar til langs tíma er litið því að þótt við höfum næg atvinnutækifæri eins og sakir standa getur svo farið að hér verði skyndilegur samdráttur og þá er erfiðara ef hingað er margt fólk komið sem treystir á atvinnu til frambúðar. Þetta snýr eiginlega að efnahagsstefnu stjórnvalda en hinn þátturinn sem við eigum að sjálfsögðu að beina sjónum okkar að er það sem þetta frumvarp stefnir að, þ.e. að treysta réttarstöðu launafólksins sem kemur hingað til lands.

Ég lýsi ánægju minni yfir því að þetta frumvarp skuli vera komið fram og ég tel mjög mikilvægt að það nái fram að ganga á þessu þingi. Ég hef að sjálfsögðu alla fyrirvara á um ábendingar sem fram kunna að koma til breytingar á frumvarpinu en ég tel að það hafi verið eðlilega og vel að verki staðið að kalla til aðila vinnumarkaðar, bæði á almennum vinnumarkaði og innan almannaþjónustunnar, svo og stjórnsýslunnar til þess að smíða frumvarpið. Síðan er hitt, að sjá til þess að þau lög sem hér verða sett nái fram að ganga, að þeim verði raunverulega fylgt eftir.