133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:40]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið hingað til Íslands. Ég fagna þessu frumvarpi, það má segja að þetta sé rökrétt framhald af því frumvarpi sem var samþykkt í fyrra um starfsmannaleigur en við í stjórnarandstöðunni gerðum þó á þeim tíma ýmsar athugasemdir við það. Ég sé hér m.a. að þó að breytingartillagan varðandi starfsmannaleigur sem við gerðum þá hafi ekki náð fram að ganga er hún komin að mestu leyti inn í liðinn starfskjör í 4. gr. frumvarpsins.

Breytingartillagan var á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara sem fullnægi áskilnaði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu.“

Fyrsti liður í 4. gr. um starfskjör er mjög svipaður og nær væntanlega yfir þetta þannig að það verður að segjast að það er jákvætt. Hins vegar varðandi skyldutryggingu lífeyrisréttinda held ég að einhver brögð séu að því að starfsmenn sem vinna hér tímabundið geti í framtíðinni ekki tekið út öll sín lífeyrisréttindi. Mig langar að biðja hæstv. félagsmálaráðherra að líta aðeins á það hvort þetta frumvarp dugi til þess að tryggja að starfsmaður sem starfar hér tímabundið geti í framtíðinni örugglega tekið út lífeyrisréttindi sín, þ.e. það sem hann hefur lagt inn. Þetta er kannski ekki nógu vel skýrt hjá mér en ég hef heyrt af brotalöm í þessum efnum, að erlendum starfsmönnum séu ekki tryggð lífeyrisréttindi sín í framtíðinni.

Hér er hvergi minnst á húsnæði. Mörgum fyndist eflaust að þar væru menn komnir niður í smáatriði en ég hefði haldið að einhver ákvæði varðandi það húsnæði sem starfsmannaleigur bjóða starfsfólki sínu upp á, sama hversu lengi þeir stoppa hér, hvort það eru fjórir mánuðir til að reisa sumarbústað eða hvað, þyrftu að vera í frumvarpinu og þá væntanlega lögum til lengri tíma litið, t.d. í liðnum um starfskjör. Við höfum reynslu frá Kárahnjúkum af lélegu húsnæði sem erlendu starfsfólki hefur verið boðið upp á og auk þess vitum við af iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem erlendir starfsmenn hafa þurft að búa í. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að taka sérstaklega inn ákvæði varðandi húsnæði fyrir erlenda starfsmenn á vegum starfsmannaleigna.

Í fyrirspurnatíma í haust þegar ég lagði fyrirspurn fyrir félagsmálaráðherra um starfsmannaleigur og reynslu af þeim lögum kom fram að þau hefðu verið farin að virka. Jafnframt spurði ég hvort gengið væri eftir því að erlendir starfsmenn kæmu með nægileg gögn fyrir viðurkenningu á menntun sinni. Menn hafa verið að grínast með það að menn séu jafnvel gjörsamlega ófaglærðir en gefi sig hér út fyrir að vera fullnuma iðnaðarmenn. Það er brotalöm á því að þess sé krafist og ég hefði talið eðlilegt að Vinnumálastofnun krefðist þess af starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum að þessi gögn lægju fyrir, þ.e. að erlendur starfsmaður sem ætlar t.d. að vinna sem fullnuma trésmiður sé með gögn sem staðfesta það að hann hafi full réttindi í þessari iðn, þótt ekki sé nema öryggisins vegna.

Um 21. gr., um skyldur notendafyrirtækis, er rétt að nefna hér að einmitt skyldur og ábyrgð notendafyrirtækja komu sérstaklega mikið til tals við umræður um starfsmannalögin og fannst okkur í stjórnarandstöðunni ekki nógu fast að orði kveðið. Hér er talað um að starfsmannaleiga skuli láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að geta framfylgt þessum lögum, þjónustusamningum, ráðningarsamningum o.s.frv. Það væri fróðlegt að vita hjá hæstv. félagsmálaráðherra hvernig staðan er í dag, hver sé reynslan af lögum um starfsmannaleigur, hvernig Vinnumálastofnun hafi gengið að fylgja þeim eftir og ná tökum á starfsmannaleigum, á fjölda, umsvifum o.s.frv. og hvort þurft hafi að beita viðurlögum til að ná hreinlega gögnum af starfsmannaleigum. Eins og er í þessu frumvarpi er hér heimiluð tímabundin stöðvun á starfsemi, og það er af einhverri ástæðu sem menn setja þá grein hér inn. Ég velti fyrir mér hver staðan sé í dag, hafa menn þurft að grípa til aðgerða gagnvart starfsmannaleigum eða hefur Vinnumálastofnun reynst auðvelt að ná í öll gögn sem hún telur sig eiga rétt á að fá frá starfsmannaleigum?

Að venju, frú forseti, fylgir fylgiskjal frá fjármálaráðuneyti. Eins og áður hefur komið fram í umræðunni veltir maður fyrir sér hvað sé að marka þegar fjármálaráðuneytið talar um einungis 7,5 millj. kr. aukaútgjöld vegna þessara laga. Nú höfum við sett nokkur lög sem tengjast Vinnumálastofnun síðustu missirin og það er áberandi að fylgiskjal kemur eins og bara viðtekin venja frá fjármálaráðuneytinu um að þegar þessi lög séu komin á þýði þau engin aukin útgjöld. Það hljómar eins og Vinnumálastofnun geti í raun endalaust tekið við verkefnum. Ég leyfi mér að efast um að það standist að þetta rúmist innan ramma fjárlaga stofnunarinnar. Það er mjög gott og jákvætt sem menn hafa verið að gera, að senda fleiri verkefni yfir á Vinnumálastofnun og koma þeim þar á einn stað og ég efast ekki um að þar séu verkin vel unnin, en getur Vinnumálastofnun endalaust tekið við verkefnum án þess að það þýði aukinn kostnað? Ég tala nú ekki um þegar við erum að tala um starfsemi sem tengist hátt í 17 þús. erlendum starfsmönnum sem við að sjálfsögðu viljum öll gera vel við. Ég efast um að þær fjárhæðir sem eru nefndar hér varðandi útgjaldaauka séu réttar og það væri ágætt að fá að heyra aðeins meira frá hæstv. félagsmálaráðherra varðandi það.

Ég ætla að láta þetta duga í umræðunni að svo komnu máli, frú forseti, en við eigum að sjálfsögðu eftir að taka þetta vel fyrir í félagsmálanefnd.