133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tel að reyndar hefði þurft að huga að þessum málum miklu fyrr en það þýðir ekkert að fjargviðrast yfir því. Það er mjög nauðsynlegt að menn hugi að því að standa vörð um kjör og atvinnuöryggi fólks á íslenskum vinnumarkaði. Auðvitað steðjar ógn að þessum kjörum vegna innflutnings á vinnuafli, hvort sem það er tímabundið eða til lengri tíma. Það er að mörgu að hyggja í þessu.

Það sem ég óska eftir að nefndin skoði vandlega er nauðsyn þess að safna gögnum um menntun og starfsreynslu þeirra starfsmanna sem koma hingað til tímabundinna starfa eða til lengri tíma, ekki bara í því augnamiði að sjá til þess að menn hafi tilskilin réttindi eins og sá ræðumaður talaði um sem hér var næstur á undan mér, heldur líka til þess að reyna að sjá til þess að undirboð á vinnumarkaðnum fari ekki fram með þeim hætti að fólk sem hefur menntun og starfsreynslu í tilteknum greinum vinni þar á lágmarkslaunum eins og greidd eru jafnvel fyrir störf sem krefjast engrar menntunar. Þá á ég við að það er rökstuddur grunur um að menn séu ráðnir hingað sem verkamenn, t.d. í byggingariðnaði, sem eru alvanir byggingaframkvæmdum og með réttindi sem smiðir eða jafnvel meiri menntun en það, svo að ég nefni bara dæmi.

Þetta grefur undan möguleikum til að halda uppi góðum starfskjörum á þessum markaði og er alveg sérstök ástæða til að huga að því að vinna gegn því að slíkt gerist. Það verður ekki gert nema með því að upplýsingar um menntun og starfsreynslu viðkomandi aðila séu fyrir hendi.

Einnig tel ég að fylgjast þurfi mjög vel með þeirri undanþágu sem er í 9. gr. frumvarpsins, um þjónustu sem felur í sér sérhæfða vinnu við uppsetningu á tækjum og öðru slíku, ef þetta á allt saman að virka. Ég hef áhyggjur af því að það sé mjög erfitt, það sé mikið verkefni að ætla að fylgjast með þessari starfsemi allri, bæði þeirri sem fjallað er um í 8. gr. og ég nefndi hér áðan og líka þar sem um er að ræða undanþágu.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að spyrja hve langt verði hægt að ganga í þessu eftirliti. Eru t.d. útboð á Evrópska efnahagssvæðinu sem fara fram samkvæmt þeim reglum sem þar gilda? Gilda þá þau atriði sem hér eru í frumvarpinu um þá starfsemi alla? Munu t.d. starfsmenn sem eru núna að vinna að jarðgangagerð í Héðinsfirði falla undir þessi ákvæði, eða önnur starfsemi sem boðin er út samkvæmt reglum um útboð á Evrópska efnahagssvæðinu?

Ég ætla ekki að hafa þetta meira. Erindi mitt var fyrst og fremst að óska eftir því að nefndin hugaði vel að upplýsingasöfnuninni um menntun og starfsreynslu starfsmanna sem hingað koma.