133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er hér komið fram og kemur nú til umræðu. Þetta er eitt af þeim málum sem þarf að ræða í sambandi við vinnumarkaðsmálin almennt og fjölda erlendra starfsmanna hér á landi, kjör þeirra og aðkomu að íslenskum vinnumarkaði ásamt því hvernig starfsemi starfsmannaleigna tengist, hvernig þær starfa hér og eru með starfsmenn á íslenska vinnumarkaðnum.

Það er fjölmargt sem þarf að skoða í þessu sambandi og mér finnst að í þessu frumvarpi sem félagsmálaráðherra hefur kynnt sé reynt að taka á mjög mörgu. Við góða yfirferð í félagsmálanefnd kemur vonandi í ljós hvernig tekst að lagfæra frumvarpið ef á þarf að halda og einnig þarf að upplýsa ýmislegt betur en gert er í þessari 1. umr.

Ég tel að að mörgu leyti sé hér verið að vinna þarft og gott verk og ber að þakka það þótt undirbúningur þess hafi tekið eitthvað lengri tíma en til stóð. Þessi mál eru ekki alveg einföld eins og umræðan mun væntanlega leiða í ljós þegar frumvarpið kemur til baka úr nefnd eftir að hafa fengið þar vandaða og góða yfirferð.

Íslenskur vinnumarkaður og verkalýðshreyfingin hér á landi hefur á undanförnum árum og áratugum reynt að festa niður kjör sín og semja um þau. Þess vegna er mönnum auðvitað ekki par sama um það ef svo hagar til hér á landi vegna mikil framboðs á erlendu vinnuafli að hér verði ef til vill með einhverjum hætti vegið að markaðskjörunum. Ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram sé liður í því að koma í veg fyrir að það gerist. Ég tel að það sé góður áfangi á þeirri leið sem við þurfum að fara í allri þeirri umræðu er varðar innflytjendur og vinnumarkaðinn. Við þurfum að vanda okkur við þetta, Íslendingar, vegna þess að við hljótum að geta lært af öðrum þjóðum, eða hvað? Við hljótum öll að vera fær til þess og eigum ekki endalaust að þurfa að reka okkur á það sama og aðrir hafa rekið sig á, heldur reyna að læra af því sem aðrir hafa rekið sig á og taka á því.

Mér sýnist að að mörgu leyti sé tekið hér á ýmsum málum sem snúa að réttindum þeirra erlendu starfsmanna sem hingað koma og vinna á vegum starfsmannaleigna. Það er verið að tryggja í frumvarpinu mikið af réttindum er varða starfskjör þeirra, gera það skýrt að þau falli undir þau lög sem almennt gilda hér á vinnumarkaði eins og varðandi starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, slysatryggingar og margt fleira, orlof, lágmarkslaun og annað slíkt.

Ég tel að þetta frumvarp sé ágætt og eigi bara að reyna að vinna út frá því eins og við best getum. Við leggjum okkur fram um það og reynum að tryggja að ekki sé opnað á það með neinum hætti að það fólk sem vinnur hér á landi sem starfsmenn starfsmannaleigna vinni að því með starfsemi sinni hér að draga niður íslensk launakjör eða veikja markaðslaunakerfið eins og menn hafa sagt að gæti orðið.

Maður hefur fengið mjög mörg dæmi í eyrað í umræðunni um að erlendir starfsmenn starfi hér á algjörlega strípuðum lágmarkstöxtum og að frá launum þeirra sé dreginn kostnaður vegna aðbúnaðar, húsnæðis og annars slíks. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„… skal veita Vinnumálastofnun eftirfarandi upplýsingar eigi síðar en átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt í hvert skipti.“

Síðan er talið upp hvaða upplýsingar skuli veita. Það er auðvitað mjög æskilegt og nauðsynlegt að þær upplýsingar sem beðið er um séu veittar eins og hér er talað um og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann telji að Vinnumálastofnun sem á að fá hér mesta hlutverkið held ég, eins og þetta er uppsett, sé í færum til þess. Getur Vinnumálastofnun náð yfir þetta mál með þessu umfangi? Þarf að styrkja sérstaklega Vinnumálastofnun eða þarf Vinnumálastofnun að taka upp sérstakt samstarf við verkalýðsfélög til að efla það að þessar upplýsingar komi fram? Hvernig gætu verkalýðsfélög t.d. komið að því, miðað við það frumvarp sem hér er til umræðu, að vinna með Vinnumálastofnun að því að upplýsingar komi fram og að fyrirtæki sé hér ekki með einhverja gervistarfsemi? Það er hægt að starfa hér í fjórar vikur, sýnist mér. Það þarf að huga sérstaklega að því.

Það hefur verið talað um að útlendingar byggju við óviðunandi aðstöðu hérlendis af ýmsum ástæðum og að laun væru jafnvel falin innan útboðs. Þetta eru allt hlutir sem er verið að reyna að koma að í þessu frumvarpi og ég vænti þess að við nánari yfirferð í hv. nefnd komist menn að þeirri niðurstöðu að hér sé nægjanlega utan um saumað, hæstv. forseti.

Það er líka nauðsynlegt að reyna að ná utan um það hvað verður gert ef fyrirtækið gefur ekki þessar upplýsingar, og ég spyr að því: Hvernig bregðumst við við því? Þessar upplýsingar á að veita innan átta daga. Það þarf mjög virkt eftirlit til að fylgja þessu eftir þannig að það dragist ekki úr hömlu að fá fram upplýsingar o.s.frv.

Ég held hins vegar að í megindráttum sé búið að setja hér upp frumvarp sem eigi að geta gagnast okkur vel við það að halda uppi því sem við viljum kalla eðlilegt vinnumarkaðsumhverfi þar sem erlendar starfsmannaleigur vega ekki að því markaðslaunakerfi sem verkalýðshreyfingin hefur unnið að að koma á í gegnum kjarasamninga sína og réttindabaráttu í mörg ár og áratugi. Það væri mjög slæmt ef afleiðingin af miklum fjölda fólks hér á landi yrði sú að markaðslaunakerfið færi að víkja. Þá er mjög hætt við því, hæstv. forseti, að það byrji mikil neikvæðni gagnvart þeim starfsmönnum sem eru hér á landi og eru ráðnir til þeirra starfa sem við þurfum á að halda.

Menn þurfa að þræða þennan gullna meðalveg, ég geri mér grein fyrir því. Ég hef hins vegar sagt, hæstv. forseti, að ég tel að það verði með öllum tiltækum ráðum að vernda markaðslaunakerfið og tryggja með einhverjum hætti að hér starfi menn á þeim kjörum sem samið er um í landinu og mér sýnist hér akkúrat verið að marka það, m.a. í 4. gr. um starfskjör þar sem vitnað er til allra þeirra laga sem íslenskir starfsmenn vinna eftir.

Hér er einnig tekið á slysatryggingum o.s.frv. í 7. gr. Við höfum því miður heyrt dæmi um fólk sem hefur unnið hér og slasast og er einhvern veginn á milli vita, þ.e. dæmi virðast hafa komið upp þar sem fólk er ekki tryggt og nánast enginn ber á því ábyrgð. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi heyrt um slík dæmi, m.a. uppi á Akranesi og víðar. Þetta er mál sem við þurfum að taka á.

Síðan held ég að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, að upplýsa um rétt þessa fólks. Eru þetta iðnaðarmenn og hvaða réttindi hafa þeir þá, járnsmiðir, rafvirkjar o.s.frv.? Það verður að gera kröfu um slík réttindi og að þau liggi fyrir þannig að m.a. sérsambönd eins og Rafiðnaðarsambandið geti fylgst með því hvort erlendir starfsmenn hér séu með þau réttindi sem þeir eiga að hafa til að vinna við raflagnir o.s.frv.

Það er mikið mál, hæstv. forseti, að við stöndum bæði vörð um réttindi manna sem hafa menntað sig til ákveðinna starfa sem og um almenn starfskjör á vinnumarkaði og aðbúnað þess fólks sem hingað kemur.

Við höfum bent á það nokkrum sinnum í umræðunni í Frjálslynda flokknum að á síðasta ári hefðu komið mörg þúsund manns inn á íslenska vinnumarkaðinn, og við höfum spurt af því tilefni: Hvað telja menn að mikið af viðbótarvinnuafli geti komið inn á íslenskan vinnumarkað á hverju ári, t.d. næstu þrjú árin? Gera menn ráð fyrir því að vinnumarkaðurinn þoli 8–10 þús. manns á hverju ári, á þessu ári og næsta o.s.frv.? Ég dreg það mjög í efa, hæstv. forseti, nema hér fari af stað eitthvert ægilegt þenslukerfi í viðbót í verklegum framkvæmdum.

Eins og við sjáum í þessum lagaramma öðlast menn ákveðin réttindi við að dvelja hér. Eftir að þessir erlendu starfsmenn hafa kynnst landi og þjóð geta þeir auðvitað, ef þeim líkar svo, tekið ákvörðun um að setjast hér að. Það hefði verið fróðlegt, hæstv. forseti, að félagsmálaráðuneytið eða Vinnumálastofnun gerði á því könnun meðal erlendra starfsmanna sem hér hafa dvalið t.d. lengur en hálft ár eða 10 mánuði hvað þeir hygðust fyrir um framtíð sína. Hyggjast þeir taka sér hér bólfestu til lengri tíma, jafnvel setjast hér að það sem eftir er þeirra ævi og stefna til þess að verða í framtíðinni íslenskir ríkisborgarar? Við þurfum auðvitað að reyna að átta okkur á því eftir föngum hversu margt erlent fólk hyggst setjast hér að og hvernig fjölskylduhagir þess þá eru. Ef hingað koma erlendir starfsmenn og fá maka sína og börn eftir 6–8 mánuði og hyggjast dveljast hér, er þá hægt að átta sig á því með einhverjum hætti hversu mikill fjöldi það væri og hvernig við tækjum á því, m.a. í íslenska skólakerfinu?

Þetta tengist því að menn koma hingað til að starfa. Gildir þá einu af hvoru kyninu þeir eru, hvort um er að ræða karla eða konur. Fólk finnur hér starfskjör sem það telur betra en í heimalandi sínu og vill kannski festa búsetu sína í nokkur ár eða jafnvel áratugi. Ég þekki margt fólk sem hefur valið það að vinna hér árum og áratugum saman, en ætlar svo þegar það kemst á lífeyrisaldurinn að búa í sínu fyrra heimalandi en er þá búið að vera hér meira og minna í 20–30 ár sem starfsmenn og hálfbúandi hér í landinu. Sumir fjárfesta í húsnæði og aðrir eru í leiguhúsnæði allan tímann, jafnvel áratugi.

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum að ræða mál sem getur orðið til mikilla bóta miðað við það ástand sem er og gæti orðið hér áfram á vinnumarkaði ef ekkert er aðhafst. Ég lýsi stuðningi mínum við það að leggja okkar af mörkum í Frjálslynda flokknum við að vinna þetta mál.