133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma á framfæri leiðréttingu við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson þegar hann fullyrðir að Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi brugðist í þessum málaflokki og vísar þar til þess þegar vinnumarkaðurinn var opnaður 1. maí á síðasta ári, þ.e. afnumin voru frestunarákvæði sem giltu gagnvart vinnuafli frá hinum nýju Evrópusambandsríkjum. Staðreynd málsins er sú að þessir tveir flokkar, að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, lögðu til að frestunarákvæðið yrði framlengt til síðustu áramóta og að á þeim tíma yrði gengið frá því ágæta frumvarpi sem hér liggur fyrir þinginu, og í annan stað að fyrir lægi stefna í málefnum innflytjenda, stefna sem nú er í burðarliðnum. Við hefðum viljað að hún hefði verið komin fram fyrr og fengi þinglega meðferð.

Eitt vil ég segja: Þetta mál snýst ekki um girðingar og múra. Hinir 17 þúsund erlendu starfsmenn sem eru að störfum á Íslandi í dag væru hér hvað sem gert hefði verið síðastliðið vor. Þetta snýst allt um þenslu og eftirspurn í íslensku hagkerfi eftir þessu sama launafólki. Það er mergurinn málsins. Það sem vakti fyrir Alþýðusambandi Íslands, hygg ég, og þeim sem lögðu til að frestunarákvæðin yrðu felld brott úr lögum, var að mikilvægast væri að taka neðanjarðarkerfið upp á yfirborðið, sem m.a. er stefnt að með þessu frumvarpi. Það sem skiptir raunverulega máli er að við förum upp úr jörðinni með þessi mál og það hygg ég að vakað hafi fyrir Alþýðusambandi Íslands.