133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:08]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svör hans. Hann svaraði að mörgu leyti ágætlega en ég vil þó hnykkja á tveimur til þremur atriðum í viðbót sem voru óskýr í svörum ráðherra.

Nú veit hæstv. félagsmálaráðherra að ég hef margítrekað að fá það fram hjá hæstv. ráðherra að hann leggi fram á Alþingi stefnumótun í málefnum innflytjenda þannig að félagsmálanefnd geti fjallað um hana og hún farið til efnislegrar umfjöllunar og atkvæðagreiðslu í þinginu og við getum gert á henni þær breytingar sem við teljum til bóta. Mér kom það þess vegna mjög á óvart að bæði hæstv. ráðherra er enn óviss hvernig hann ætlar að leggja fram þessa stefnumótun og að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hafi tekið undir það að það væri allt í lagi að ræða þetta í einhverri umræðu um skýrslu frá ráðherra. Það er tvennt ólíkt að ræða skýrslu eða að málið, þ.e. stefnumótunin komi til efnislegrar umfjöllunar í félagsmálanefnd þar sem við tökum afstöðu til hennar, greiðum atkvæði um hana og betrumbætum hana ef þurfa þykir. Ég minni á að hjá félagsmálanefnd liggur fyrir tillaga frá Samfylkingunni um stefnumótun í þessum málum og þá þarf að skoða þessa stefnumótun líka í tengslum við þá tillögu sem liggur fyrir félagsmálanefnd þannig að ég bið ráðherrann um skýrari svör.

Síðan spyr ég ráðherrann: Hvenær er það nákvæmlega sem við megum vænta þess að fá inn í þingið breytingar á lögunum um lögheimili til að hægt sé að taka á því vandamáli sem uppi er núna og tengist fastri búsetu í atvinnuhúsnæði? Það hefur komið fram að það fólk sem býr í atvinnuhúsnæði býr þar við allsófullnægjandi aðstæður. Það má ekki gerast að við fáum þetta til umfjöllunar á síðustu dögum þingsins og getum því ekki fjallað um þetta með eðlilegum hætti.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann frekar út í breytingar á lögunum um starfsmannaleigur og geri það í síðara andsvari mínu.