133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Umræðan um málefni útlendinga á sér margar hliðar. Þeim var velt upp á landsþingi Frjálslynda flokksins. Þar voru þessi mál rædd frá ýmsum hliðum. Þessi umræða er greinilega mjög viðkvæm. Hún er mjög viðkvæm fyrir Framsóknarflokkinn sem kennir sig við gildi sem ég man nú ekki hvað heita, eitthvert nýyrði hjá formanninum, gott ef það var ekki þjóðhyggja. Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra geti upplýst í hverju þjóðhyggjan felst.

Stefna Framsóknarflokksins í þessum málaflokki virðist vera að úthrópa alla málefnalega umræðu og sverta hana. Einhverjum kann að finnast það sérstakt að ég skuli finna að því við framsóknarmenn. Þá á ég við hörundsára framsóknarmenn sem hefur sviðið undan ýmsum aðfinnslum mínum þegar ég hef bent á gjörðir þeirra og fyrrum formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann sölsaði undir sig ríkiseignir, m.a. Búnaðarbankann. Mörgum hefur fundist sá sem hér talar fara yfir strikið þegar ég hef sagt að hann hafi selt bankann fjölskyldu sinni og nánum samstarfsmönnum. Ég sé að hæstv. félagsmálaráðherra er nokkuð órótt og lítur á klukkuna þegar ég fer í gegnum þessar staðreyndir. Ég held að framsóknarmenn ættu að líta í eigin barm þegar þeir sverta umræðu á landsþingi Frjálslynda flokksins. Ég held að fáir þingmenn hafi hagað sér jafndólgslega hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir gerði í pistli í Ríkisútvarpinu, gagnvart samþingmanni sínum Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Ég ætla að grípa niður í pistil hv. þingmanns þar sem hún segir:

„Um síðustu helgi stigu frjálslyndir skrefi lengra í andúð sinni, þeir hættu að daðra við andúð á útlendingum og ákváðu að ganga alla leið. Það kom greinilega fram í setningarræðu Guðjóns Arnars, formanns flokksins, sem talaði á þann veg að auka og ala á ótta fólksins í landinu við fólkið sem hingað kemur í atvinnuleit. Ég ætla ekki að endurtaka hér ógeðfelldan boðskap formanns frjálslyndra en láta nægja að segja að þar komu fram viðhorf sem þær þúsundir Íslendinga sem flytja tímabundið til útlanda til náms og starfs þurfa sem betur fer ekki að mæta hjá öðrum þjóðum.“

Ég tel að þjóðin eigi einfaldlega heimtingu á að fá að heyra hjá hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann geti tekið undir þessi orð. Gerir hann það, frú forseti? Það væri fróðlegt að heyra hvort hann getur tekið undir þessi orð. Hann sagði í umræðunni að hann hefði ekki kynnt sér ræðuna. Maður hefði haldið að hann hefði kynnt sér þá ræðu. Talsmaður hans í þessari umræðu hafði aldrei heyrt annað eins líkt og hún dylgjaði um. Hæstv. félagsmálaráðherra forðast þessa umræðu og reynir að koma sér hjá henni.

Mér finnst að þjóðin eigi heimtingu á að vita hvort ráðherra geti tekið undir þessi orð. Er hægt að finna þessu stað í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins? Ég get ekki fundið þann málflutning. Mér finnst að flokkur sem hefur kveinkað sér undan orðræðu, m.a. undan orðum mínum, verði að geta rökstutt orð sín að að einhverju leyti. Ég hef rökstutt orð mín og farið nákvæmlega yfir það þegar menn hafa kvartað undan því að ég hafi gengið nærri fyrrum formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni. Þá hef ég bara rakið þau gögn sem liggja fyrir og lagt þau fram í umræðunni. Hvað hefur gerst? Framsóknarmenn hafa hrakist undan.

Nú kveður við annan tón. Nú fara framsóknarmenn í Ríkisútvarpið með dylgjur og geta síðan ekki staðið við orð sín. Þessar dylgjur hafa einnig verið í þingsölum. Í kjölfar þess að þingi Frjálslynda flokksins lauk ræddi hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson eitthvað um þessi mál en fór frekar halloka úr þeirri umræðu.

Ég tel rétt að fara rækilega í gegnum umræðuna. Það hefur verið lagt út á versta veg að formaðurinn skuli hafa minnst á að fylgjast bæri með smitsjúkdómum. Í sóttvarnalögum kemur fram að fylgjast beri með smitsjúkdómum. Það á að fylgjast með berklum. Það er einfaldlega skylda stjórnvalda. Ef þetta misbýður hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur svo að hún telji sig vera í fullum rétti til að vera með dylgjur og svívirðingar um fólk í Ríkisútvarpinu þá finnst mér að framsóknarmenn ættu að finna þeirri orðræðu einhvern stað. Umræðuna um berklana má m.a. finna í grein í blaði SÍBS þar sem Helgi Hróðmarsson læknir fer rækilega í gegnum málið og minnir stjórnvöld á skyldu sína í þessum efnum. Mér ótrúlegt þegar fólk fer svona fram af í umræðunni.

Ég vonast til þess að framsóknarmenn svari fyrir þennan pistil hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur. Það væri sómi að því að hæstv. ráðherra gerði það og ræddi hvort hægt væri að finna þeim orðum stað í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, að hann hafi gengið of langt. Pistill Sæunnar Stefánsdóttur keyrir algerlega um þverbak. Það segir alla söguna um hvað hæft er í orðum hv. þingmanns að þeir framsóknarmenn sem hér eru treysta sér ekki til að ræða þessa hluti … (MÁ: Það er nú enginn.) Hæstv. félagsmálaráðherra situr í hliðarherbergi og treystir sér ekki til að ræða þetta. Það er einfaldlega svo.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma en hér er greinilega um viðkvæmt mál að ræða sem framsóknarmenn reyna að afvegaleiða. Þessi umræða og þær þjóðfélagsbreytingar sem eiga sér stað á Íslandi eiga allt annað skilið en þvílíkan málflutning sem hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir viðhafði á Rás 2 fyrr í vikunni.