133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[16:49]
Hlusta

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggur þingmálaþrenna frá þingflokki Samfylkingarinnar sem við lögðum fram í þinginu þegar í haust og hefði að sjálfsögðu átt að koma hér öll til umræðu en það er fyrst nú sem mælt er fyrir fyrsta málinu af þremur í þessari umræðu. Þessi þingmál miða að því að ná utan um þá brotakenndu virkjana- og stóriðjustefnu sem nú er við lýði.

En hvaða þrjú mál eru þetta? Það er í fyrsta lagi sú rammaáætlun um náttúruvernd sem ég tala hér fyrir. Síðan er það í öðru lagi breyting á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu en þar er lagt til að iðnaðarráðherra verði gert skylt að bera það undir Alþingi þegar veitt eru rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjana. Í þriðja lagi er um að ræða tillögu til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem lagt er til að umhverfisráðherra verði að leita samþykkis Alþingis fyrir nýtingu íslenska ákvæðisins samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Eins og ég sagði er þetta tilraun okkar til að ná utan um þessa brotakenndu virkjana- og stóriðjustefnu sem nú er rekin og þennan málaflokk sem einkennist nú mjög af stjórnleysi vegna aðgerða eða eftir atvikum aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Með þessum þingmálum viljum við freista þess að ná tökum á þessum málaflokki.

Það stjórnleysi sem ríkir í málaflokknum er nokkuð merkilegt, virðulegur forseti, vegna þess að eins og allir vita hefur hæstv. iðnaðarráðherra sagt að tímabili virkrar stóriðjustefnu sé lokið og nú sé málið í höndum kaupenda og seljenda raforku, þ.e. í höndum álfyrirtækja og orkufyrirtækja og svo sveitarfélaga. Hvað þýðir þetta í raun? Hvað þýðir það að tímabili virkrar stóriðjustefnu sé lokið? Það þýðir einfaldlega að stjórnvöld hafa afsalað sér ábyrgð á málaflokknum. Eins einkennilega og það hljómar hafa stjórnvöld ákveðið að fela álfyrirtækjunum og orkufyrirtækjunum stefnumótunina í þessum málaflokki. Venjulega er það þannig að stjórnvöld marka stefnuna. Síðan geta þau eftir atvikum falið einkaaðilum framkvæmd stefnu sem byggir á mjög skýrt afmörkuðum lögum og reglum en nú er þessu alveg öfugt farið. Stjórnvöldin hafa afsalað sér stefnumótunarvaldinu í hendurnar á þessum aðilum úti á markaðnum en síðan eru það jafnvel fyrirtæki í eigu hins opinbera sem framfylgja jafnframt þeirri stefnumótun sem þar á sér stað. Það er búið að hafa algjör endaskipti á þessum hlutum, virðulegur forseti, og þess vegna er það algjört ábyrgðarleysi af hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni allri þegar hún segir að tímabili virkrar stóriðjustefnu sé lokið og henni komi þetta ekki lengur við. Það er algjört ábyrgðarleysi á mjög mikilvægum málaflokki sem hefur afgerandi áhrif á efnahagslíf okkar, umhverfi og framtíð. Það er mjög mikilvægt, virðulegur forseti, einmitt vegna þess hvernig þessum málum er fyrir komið að núna verði tekið í taumana og það verði reynt að ná utan um málaflokkinn og beita þeim stjórntækjum sem við höfum til þess.

Samfylkingin hefur farið í gríðarlega mikla umræðu á undanförnum missirum og árum í þessum málaflokkum í öllu sem lýtur að auðlindanýtingu og umhverfisvernd. Þessi þingsályktun og tvö frumvörp sem ég minntist á áðan eru afurð þeirrar umræðu og stefnumótunar og ég fullyrði, virðulegur forseti, að enginn þingflokkur hefur verið eins iðinn við að leita lausna í þessum málaflokki og Samfylkingin hefur verið. Við höfum ekki bara skoðanir á málaflokknum heldur höfum við litið á það sem skyldu okkar að benda á færar leiðir til að takast á við hann. Við kynntum í sumar tillögur okkar sem við kölluðum Fagra Ísland, og Fagra Ísland er í rauninni áætlun um hvernig eigi að takast á við þennan málaflokk.

Ég sagði, virðulegur forseti, að það væri mikilvægt að taka í taumana og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta og tekið raunverulega í taumana þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum og þar vísa ég auðvitað til áforma um stækkun í Straumsvík og álver í Helguvík.

Fyrir því eru ýmsar ástæður, virðulegur forseti. Í fyrsta lagi eru engar efnahagslegar aðstæður sem réttlæta þessi áform núna. Menn réttlættu áform í stóriðjumálum á árum áður með bágu atvinnuástandi. Sú er ekki raunin núna. Þvert á móti er mikil þensla, ekki síst á suðvesturhorninu og við höfum nýlega séð tölur um að hún hafi á sex ára tímabili verið 39%, þó bara fram til 1998. Ég er viss um að ef við hefðum tekið það lengra, árabilið frá 1998–2004, hefðum við séð hærri tölur. Á sama tíma sjáum við neikvæðan hagvöxt á Norðvesturlandi og Vestfjörðum sem nemur 6%. Það er mikil þensla á suðvesturhorninu, henni fylgja háir vextir og verðbólga og hvort tveggja dregur mátt úr landsbyggðinni og bitnar ekki síst á heimilunum í landinu. Það er því skoðun okkar í Samfylkingunni að það sé nauðsynlegt við þessar aðstæður að kæla hagkerfið og koma hér á jafnvægi, þannig vaxtastigi, koma verðbólgunni niður á það stig að hér geti byggst upp með eðlilegum hætti og að aðstæður séu þá í þágu atvinnulífsins almennt og heimilanna í landinu.

Í öðru lagi kalla þessar stóriðjuframkvæmdir á suðvesturhorninu á virkjanir á svæðum sem ekki hafa enn verið metin út frá náttúruverndarsjónarmiði. Bendir allt til þess að verulega verði gengið á ýmis náttúrugæði af þessum sökum. Þá kemur rammaáætlunin til sem ég tala hér fyrir.

Í þriðja lagi blasir við að verði fram haldið sem horfir verði allir okkar helstu virkjanakostir nýttir í þágu áliðnaðarins sem er mengandi stóriðja og stefnir nú þegar fram úr þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við undirgengumst með Kyoto-bókuninni. Það hefur verið tekið saman, virðulegur forseti, m.a. af Merði Árnasyni og má finna það á heimasíðu hans að bara stækkunin í Straumsvík stefnir fram úr íslenska stóriðjuákvæðinu sem svo hefur verið kallað samkvæmt Kyoto-samningnum. Losun frá verksmiðjunum á Grundartanga, Reyðarfirði og svo í Straumsvík nemur 1.642 þús. tonnum á ári sem er 42 þús. tonnum meira en stóriðjuákvæðið leyfir. Bara með stækkuninni í Straumsvík, til viðbótar því sem þegar er komið, er stefnt fram úr Kyoto-bókuninni og íslenska ákvæðinu.

Núna liggja fyrir, virðulegur forseti, og þess vegna er enn mikilvægara en ella að taka í taumana, umsóknir um rannsóknarleyfi á 16 stöðum á landinu með það fyrir augum að kanna virkjanakosti á þessum stöðum. Þetta rennir enn stoðum undir mikilvægi þess að menn taki í taumana, nýti þau tæki sem þeir hafa og fresti þeim áformum öllum sem uppi eru núna um þessi álver á suðvesturhorninu.

Eins og ég sagði mæli ég fyrir einum þætti þessa máls sem er tillagan um rammaáætlun á sviði náttúruverndar. Þetta er einn liður málsins en kannski sá mikilvægasti vegna þess að þarna erum við að takast á við það verkefni að tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu og tryggja nú þegar vernd ákveðinna svæða sem við teljum að geti verið í hættu ef svo heldur áfram. Inni í tillögum okkar um Fagra Ísland voru líka tillögur um að gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og síðast en ekki síst tillaga um að auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál.

Tillagan sem ég mæli fyrir, sem er rammaáætlun um náttúruvernd, felur það í sér að umhverfisráðherra verði falin gerð slíkrar rammaáætlunar fyrir landið allt og í þessari áætlun komi fram tillögur um skipulag verndarsvæða og áætlun um virka verndun þeirra. Við erum þeirrar skoðunar að lagastoð náttúruverndar sé veikburða og að mikilvægum rannsóknum á verðmætum náttúrusvæðum sé mjög ábótavant, umsjón með rannsóknum sé ekki alltaf í höndum réttra aðila og heildarsýn yfir náttúrusvæði okkar skorti. Það má segja að á undanförnum árum hafi náttúra Íslands átt í vök að verjast og við þessar aðstæður er hætta á því, virðulegur forseti, að þjóðin glati um alla framtíð verðmætum náttúruperlum sem ekki eru einasta mikilvægar í sjálfu sér, heldur einnig fyrir menninguna, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins. Með gerð rammaáætlunar um náttúruvernd verður vonandi loks hægt að ljúka öflun nauðsynlegra grunngagna til að hægt sé að leggja mat á verndargildi svæða á landinu öllu en mjög hefur skort á þessi gögn.

Ég var að glugga, virðulegur forseti, í rannsóknaáætlun sem Náttúrufræðistofnun gerði vegna áætlana um jarðvarmavirkjanir. Þau gerðu þar áætlun um fimm ára rannsóknarverkefni og töldu sig þurfa til þess um 20 millj. á ári. Virðulegur forseti. Til þess að gera þetta, til að ljúka þessari rannsóknaáætlun erum við að tala þarna um 100 millj. kr. og ef við hugsum til þeirra miklu fjármuna sem m.a. hefur á undanförnum árum verið varið í markaðssetningu og ýmislegt sem tengist stóriðjuframkvæmdum eru þetta auðvitað ekki miklir fjármunir og hefði þurft að vera hægt að vinna þetta á skemmri tíma.

Í rammaáætlun um náttúruvernd teljum við að eðlilegt væri að skipta náttúrusvæðum í þrjá meginflokka eftir verndargildi. Í fyrsta lagi væri svæði þar sem talið er hafið yfir allan vafa að vernd er nauðsynleg í samræmi við alþjóðlega matskvarða sem lagaðir hafa verið að íslenskum aðstæðum og slík svæði þyrfti að friða lögum samkvæmt. Þetta mætti, virðulegur forseti, kalla virka vernd. Annar flokkur svæða nyti síðan sérstakrar verndar sem kalla mætti biðvernd. Það eru svæði sem þarf að rannsaka betur og/eða talið er að komi til annarrar nýtingar að heild eða hluta. Þriðji flokkurinn nyti síðan lágmarksverndar núverandi lagaramma. Á þeim svæðum gæfist eftir aðstæðum kostur á ýmissi annarri nýtingu en verndarnotkun og tillagan sem lýst er hér er ekki ólík vatnsfallalögum Norðmanna.

Markmið þessarar rammaáætlunar um náttúruvernd er auðvitað að ná sátt um þau svæði sem njóta skuli verndar en um leið skýrast línur um hvar ráðast megi í framkvæmdir. Þannig kallast þessi tillaga á við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem verið hefur í vinnslu á vegum iðnaðarráðherra í allnokkur ár en á auðvitað eftir að koma til kasta þingsins og þingmenn eiga eftir að taka afstöðu til þeirrar forgangsröðunar sem í þeirri rammaáætlun var.

Framkvæmdir í náttúru landsins valda oft og tíðum óafturkræfum spjöllum en það gerir verndun hins vegar ekki. Því er rammaáætlun um náttúruvernd ætlað að vera stefnumótandi grundvallarskjal við gerð landskipulags og aðalskipulags á sveitarstjórnarstigi. Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að slíkt grunngagn sé til þegar m.a. sveitarfélögin vinna að aðalskipulagi sínu þannig að ekki sé undir hælinn lagt hvaða meðhöndlun mikilvæg náttúrusvæði fá í aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga. Áætluninni eins og við leggjum hana upp er ætlað að vera grundvöllur sátta og samstöðu um verndun og nýtingu íslenskrar náttúru. En til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að þangað til niðurstöður áætlunar liggi fyrir verði allar umsóknir um rannsóknar- og nýtingarleyfi til virkjanaframkvæmda háðar samþykki Alþingis og það er þingmál númer tvö sem ég nefndi áðan. Síðan teljum við líka mikilvægt eins og ég nefndi áðan og er okkar þriðja þingmál að ákvörðunarvald um nýtingu losunarheimilda samkvæmt íslenska ákvæðinu svokallaða í Kyoto-bókuninni verði einnig fært til Alþingis. Þarna náum við tökum með þríþættum hætti, þ.e. rammaáætlunin, að færa rannsóknar- og nýtingarleyfin til Alþingis og í þriðja lagi að færa ákvörðun um nýtingu á íslenska ákvæðinu einnig til Alþingis. En til þess að við getum náð utan um þetta, virðulegur forseti, er algjör forsenda að þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar í Straumsvík og Helguvík verði frestað á næstu árum.