133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:13]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það sem vakti athygli mína í henni var umfjöllunin um náttúruverndaráætlun vegna þess að við gerð tillögu okkar fjölluðum við auðvitað töluvert um náttúruverndaráætlun. Það er rétt hjá þingmanninum að sú fyrsta er í gangi núna, frá 2004–2008. Hún gerir ráð fyrir 14 nýjum friðlýstum svæðum og það er aðeins eitt af þeim sem komist hefur í gagnið. Þó má ekki gleyma Vatnajökulsverkefninu sem af sérstökum ástæðum er núna í gangi og við skulum fagna.

Við undirbúning þessarar náttúruverndaráætlunar var þetta þannig að Umhverfisstofnun var með 75 svæði í tillögugerð sinni og Náttúrufræðistofnun með annað eins eða heldur meira, að mig minnir. Af nógu er að taka. En náttúruverndaráætlun er vissulega ekki brúkleg til þess sem við erum að hugsa með þessari tillögu, heldur þurfum við, eins og staðan er núna, að gera einmitt rammaáætlun sem skiptir náttúrusvæðum á landinu í þrjá flokka, eins og hv. flutningsmaður lýsti áðan. Að því loknu er hægt að nota náttúruverndaráætlunina sem verkfæri við að skapa virka vernd um ákveðin svæði og breyta svæðum sem fyrst eru í biðvernd í virka vernd. Náttúruverndaráætlun er ekkert annað en stuðningur þingsins við áform umhverfisráðherra hverju sinni um friðlýsingar.

Hins vegar er alveg ljóst að rammaáætlun um náttúruvernd sem við leggjum hér til mundi auðvitað fylgja tiltekinn lagarammi um þau svæði sem út úr henni kæmu sem væri þá undirstaða náttúruverndaráætlunar á því kjörtímabili og hinu næsta. Þetta vildi ég segja um muninn á þessu tvennu.