133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

rammaáætlun um náttúruvernd.

18. mál
[17:19]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Þau orðaskipti sem hér áttu sér stað eru grundvöllurinn í málinu. Meðan rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er hugsuð sem tæki til að meta virkjanakosti út frá forsendum þannig nýtingar vill Samfylkingin snúa dæminu við og meta landið og náttúruna út frá gildi náttúrunnar sjálfrar. Það á ekki að vera þannig, virðulegi forseti, að unnt sé að aflétta t.d. friðlýsingu til að virkja.

Jafnaðarmenn telja að náttúra Íslands sé sameign þjóðarinnar sem hverri kynslóð hafi verið fengin til skynsamlegrar nýtingar og að okkur sé skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur. Jafnframt berum við Íslendingar ábyrgð á sérstökum náttúruverðmætum landsins gagnvart öllu mannkyni. Við skulum muna það í umfjöllun um hvaða leiðir við eigum að fara til þess að vernda landið okkar, að Evrópa er nær öll orðin meira eða minna manngerð og að ásælni manna eykst stöðugt í að komast á vit ósnortinnar náttúru og að óbyggðir Íslands eru ómetanleg auðlind í dag. Þess vegna höfum við sagt að verndun náttúrunnar sé ein tegund nýtingar og sú sem sennilega skilar mestum verðmætum á endanum. Náttúra Íslands er einn meginþátturinn í ímynd landsins og okkur finnst skipta miklu að sú ímynd bíði ekki hnekki.

Við segjum líka að í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar sé tímabært að Íslendingar skipti um gír og tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Þetta hefur framsögumaður, formaður Samfylkingarinnar, farið mjög vel yfir í umræðunni.

Ég hlýt líka að nefna það af því að við tölum um hvað á að gerast í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar, að það þýðir ekkert lengur að mínu mati að ræða það eða dvelja við það hvort hefði átt að virkja á Kárahnjúkum eða ekki. Það er búið og gert og það sem skiptir máli í dag er að læra af ákvörðunum, læra af vinnulagi og breyta vinnubrögðum þar sem þess er þörf. Það er það sem við í Samfylkingunni leggjum til grundvallar. Við höfum m.a. bent á tillögur okkar sem gera ráð fyrir uppbyggingu á allt öðru sviði, eins og átaki við rannsóknir og verndaraðgerðir með rammaáætlun um náttúruvernd og þau einstöku svæði sem hér hefur verið farið yfir.

Mér finnst líka áhugavert að við stöldrum aðeins við það, af því að við segjum stundum að við eigum að huga að því sem skiptir máli og skila því sem verðmætt er til barna og barnabarna, hvort þau geti metið hvort það hafi verið rétt eða rangt af okkur að virkja það sem við höfum virkjað eða hvort við höfum gengið of langt. Ég efast um það ef við horfum langt í framtíðina vegna þess að ef við þekkjum ekki hverju er fórnað höfum við beinlínis ekki vit á hvort það hefði átt að skilja landið eftir ósnortið.

Þess vegna vil ég nefna dæmi af því að ég fer oft bæði um Fljótshlíðina, Emstrurnar og í Þórsmörkina og hef stundum tekið þátt í að ræða það hvernig það hefði verið ef á einhverjum tíma hefði verið byggð stífla ofarlega í Markarfljótinu löngu áður en Þórsmörk varð að draumaveröld fjöldans og gersemum landsvæðisins í Þórsmörk hefði þannig verið drekkt áður en við kynntumst henni. Slík aðgerð hefði e.t.v. ekki verið gagnrýnd nema af örfáum ef hún hefði gerst á þeim tíma þegar fáir þekktu. Í dag dettur engum í hug að nýta það vatnsmagn sem byltist fram í Markarfljóti með þeim afleiðingum að Þórsmörk yrði ógnað. Hvað er ég að segja með þessu? Ég er að segja að þekking skapar viðhorf, þekking fjöldans var af mjög skornum skammti þegar Kárahnjúkavirkjun var ákveðin. Bætt hefur verið úr því og ég vil taka það fram hér af því að sumir hnýta í Ómar Ragnarsson varðandi það hvað hann hefur lagt mikla alúð og ákefð í að kynna almenningi undraveröld óbyggðanna, að það er samt e.t.v. fyrir gerðir hans sem nær allir þekkja núna óbyggðasvæðin norðan Vatnajökuls.

Ég dreg þetta fram hér til að undirstrika að Samfylkingin vill með því þingmáli sem hún setur fram setja náttúruna í öndvegi og reyna eins og unnt er að tryggja að aldrei í framtíðinni verði tekin óupplýst ákvörðun um nýtingu og breytingu á landsvæði sem á í raun vernd skilið. Þetta er stóra verkefnið okkar, að það sé svo góð þekking á náttúrunni að við föllum aldrei í þá gryfju að vaða áfram, eins og oft hefur verið gert því miður fram að þessu, í verkefni af því að þau hafa gefið gull í aðra hönd og verið litið á málin með skammtímahagsmuni í huga.

Ég hlýt líka að minna á af því að við í Samfylkingunni erum með þessum málum að leggja til að héðan í frá verði unnið út frá þekkingu og á grundvelli náttúru landsins, að Samfylkingin hefur í mörg ár, ár eftir ár, flutt tillögur á Alþingi um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúruverndarkorta. Þau eru alger forsenda þess að unnt sé að meta landið, meta viðkvæma náttúru og að hægt sé að þróa aðferðir til að skrá, flokka, meta og vakta náttúruna og skapa þannig grunn fyrir skynsamlegri landnotkun. Samfylkingin er því ekki í fyrsta sinn að flytja mál sem skiptir verulegu máli upp á góð vinnubrögð heldur er Samfylkingin að ganga skrefinu lengra en nokkur flokkur áður og setja náttúruna fullkomlega í öndvegi í allri ákvarðanatöku.