133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:09]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð og hlý orð í minn garð. Það er rétt sem þingmaðurinn kom inn á, að slíkur er fjöldi meðflutningsmanna í málinu að hægt ætti að vera um vik. En ég ætlaði og reyndi á síðasta þingi að beita smáfortölum og fá flýtimeðferð á málinu og óskaði eftir að það yrði ekki sent til nefndar en það stangast náttúrlega á við þingsköp. Ég trúi hins vegar ekki öðru en málið nái fram að ganga og því muni ljúka með vilja meiri hluta alþingismanna, þótt nokkuð sé skammt til þingloka. Ég hef þá óbilandi trú að nú séu menn að átta sig á hvað þjóðfáninn er okkur mikils virði.

Tóku þingmenn eftir því t.d. í nýlokinni heimsmeistarakeppni í Þýskalandi, hvað öllum þótti sjálfsagt og eðlilegt að veifa þjóðfánunum og mikið bar á íslenska fánanum? Ég held því að það sé bara góð vakning meðal almennings um notkun þjóðfánans. Búið er að rýmka reglurnar þannig að nú geta fyrirtæki notað fánann á umbúðir sínar eða vörumerki og ég tel að full ástæða sé til að skerpa og brýna á þessu.

Ég held að ég fari með rétt mál að ekki eru mörg ríkisfyrirtæki á Íslandi sem nota þjóðfánann og hafa hann að húni fyrir framan fyrirtæki sín. Það er Flugmálastjórn Íslands, hún hefur gert það (Forseti hringir.) og líklega er Landhelgisgæslan búin að taka þann sið upp líka.