133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:11]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heimsmeistaramótið, þjóðfáninn, þjóðsöngurinn, meira að segja sjáum við íþróttamennina okkar syngja þjóðsönginn þegar við sitjum límd við tækin til að fylgjast með afrekum þeirra.

En þingmenn eru, því miður, mjög vanir því að mál þeirra, hversu góð sem þau eru, fari til nefndar og komi ekki úr henni aftur. Það eru því örlög þingmanna að leggja vinnu í góð mál, flytja þau en síðan festast þau í möppum í nefndinni og koma ekki til baka. Mér er til efs að það eigi að vera þannig með mál sem flutt er og snýr gersamlega að þinginu sjálfu. Mér er það til efs að ríkisstjórnarmeirihluti eigi að fá að ráða því í nefnd að mál af þessum toga sé lokað þar inni. Mér fyndist því mjög eðlilegt að málið væri tekið upp út frá þeirri forsendu til umræðu í nefndinni. Ég geri ráð fyrir að þetta mál sé í allsherjarnefnd. Meiri hlutinn ræður í öllum nefndum. Meiri hlutinn tekur pólitíska ákvörðun í þeim málum sem við flytjum. Stjórnarmeirihlutinn vill ekki að mál þingmanna, sérstaklega ekki stjórnarandstöðuþingmanna, séu samþykkt af því að þeir vilja eiga sína pólitík sjálfir.

En þetta er mál sem snýr að vilja þingmanna varðandi Alþingi sjálft og ég set stórt spurningarmerki við að hægt sé að loka það inni í möppu í allsherjarnefnd.