133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:13]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega við nokkuð ramman reip að draga í þessu máli. Í fyrsta lagi. Í febrúar 2004 birtist heljarmikil frétt um það í Morgunblaðinu að forsætisnefnd Alþingis hefði beðið um að laga og yfirfara íslenska skjaldarmerkið. Þegar viðkomandi aðilar höfðu lokið verki sínu dró Alþingi í marga mánuði að greiða kostnaðinn, greiða það sem Alþingi hafði beðið um af því að annar forseti var kominn hér í stólinn og hann var á móti þeirri vinnu sem var framkvæmd. Það er náttúrlega skömm að því að svona skuli hafa vera staðið að verki.

Í annan stað gat ég þess líka að ekki eru allir sáttir við þessa þingsályktunartillögu en mér finnst mjög ósanngjarnt og óbilgjarnt að menn skuli koma fram í fjölmiðlum, eins og hæstv. fyrrverandi forseti Alþingis, Halldór Blöndal, og segja í viðtali í febrúar 2004, með leyfi forseta:

„Það er rétt, að tillaga hefur verið lögð fram á Alþingi um að koma fánanum fyrir í þingsalnum. Reynt hefur verið að útfæra þá hugmynd en ekki tekist að minni hyggju. Við Íslendingar erum ekki vanir því að nota fánann til daglegs brúks með því að stilla honum upp úti í horni eða sem glugga- eða veggtjöld.“ — Sem glugga- eða veggtjöld.

Þetta er slík vanvirða við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að engu tali tekur. Ég hef ekki fleiri orð um það, virðulegi forseti.