133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta þingmál er stutt og skýrt, ein setning: Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga. Ég er einn flutningsmanna tillögunnar en eins og komið hefur fram fer fyrir okkur 31 þingmanni hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Ég vil gera röksemdir hans að mínum og segja, að með því að setja þjóðfánann í þingsalinn þá sýnum við honum tilhlýðilega virðingu og ekki aðeins það heldur einnig þeirri hugsjón sem hann er tákn fyrir. Íslenski þjóðfáninn er tákn fullveldis þjóðarinnar og hann er tákn hugsjónarinnar um frjálst og óháð Ísland.

Innan þingsins eru margir áhugamenn um þetta mál eins og komið hefur fram og utan þings einnig eins og hv. 1. flutningsmaður Guðmundur Hallvarðsson gat um í framsöguræðu sinni. Hann nefndi þar sérstaklega Pétur Kristjánsson og ég vil einnig nefna nafn hans og mikla baráttu fyrir hönd íslenska fánans, að farið sé með hann samkvæmt settum reglum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en hvet til þess að þetta mál verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fyrir því er meiri hluti í þinginu.