133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[18:21]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis er ekki ný. Hún hefur verið lögð fram áður og mælt fyrir henni af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Ég tel hiklaust að hér sé mjög gott mál á ferðinni. Allur þingflokkur Frjálslynda flokksins styður málið. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru 31. Og ég vil taka undir lokaorð hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þar sem hann lagði til að þetta mál yrði afgreitt héðan frá hinu háa Alþingi og fengi samþykki, að sjálfsögðu.

Ég held að það færi mjög vel á því að við hefðum þjóðfána okkar í salnum og við hefðum hann við hliðina á sæti virðulegs forseta Alþingis, það færi mjög vel á því. Mér finnst það hreinlega vanta að við höfum þetta sameiningartákn þjóðarinnar einmitt á áberandi stað í þingsalnum og það yrði bæði smekklegt og undirstrikaði jafnframt einingu þjóðarinnar og um leið að hér er um að ræða Alþingi Íslendinga. Ég vil mælast til þess að þetta mál verði afgreitt nú á þinginu, sem er síðasta þing fyrir kosningar, og að við sem nú sitjum á þingi færðum þjóðinni þessa ákvörðun að gjöf við lok þingstarfa í vor þannig að við getum hafið nýtt kjörtímabil aftur að hausti þar sem þjóðfáni okkar Íslendinga yrði hafinn til vegs og virðingar í sölum Alþingis. Ég lýsi því enn og aftur: Allur þingflokkur Frjálslynda flokksins styður málið heils hugar.