133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[18:34]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þegar þessi tillaga var fyrst lögð fram þá vakti fyrir mér og öðrum flutningsmönnum að finna leiðir til að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar og var á þeim tíma að okkar mati skynsamlegast að fara Stórasand. Síðan hefur komið í ljós að sú framkvæmd hefur mætt mikilli andstöðu. M.a. hafa, eins og ég skil það, ýmsir á Vesturlandi og sérstaklega í Húnavatnssýslum lagst gegn þeirri vegagerð, en nú er aftur komið upp að mikill stuðningur er við að leggja veg yfir Kjöl samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins sem ég tel mjög góðan kost í staðinn fyrir Stórasand. Verður þá að sjá til síðar hvort ráðist verði í þá leið en ýmsir í Húnavatnssýslum og Borgarfirði hafa áhuga á því auðvitað að leggja veg úr Borgarfirði yfir í Miðfjörð, yfir Arnarvatnsheiði svo menn geti komist þá leið.

Ég sá ástæðu til þess að málið yrði tekið á dagskrá til að vekja athygli á því hversu vel og myndarlega hefur verið staðið að stofnun hlutafélags um að byggja upp veg yfir Kjöl. Ástæðan er auðvitað sú að slíkur vegur styttir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 47 km ef farið er um Selfoss og ég hygg 57 km ef farið er um Þingvelli. Ef við hugsum um þá sem búa á Selfossi þá styttir það leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 140 km. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða. Á Suðurlandi búa um 25 þús. manns. Þar eru kannski að jafnaði 10 þús. manns í sumarbústöðum. Búast má við því að þetta fólk muni sækja norður eftir þessari leið á fallegum sumardögum til að lyfta sér upp.

Það hefur auðvitað verið gamall draumur bæði Norðlendinga og Sunnlendinga að geta haft sem greiðastar samgöngur sín á milli. Þetta er ekki nýtt af nálinni, þetta hefur alla tíð verið. Rökstuðningurinn með Kjalvegi fremur en Stórasandi er einmitt sá að með því er hægt að tengja þessa landshluta saman með fastari og betri hætti en áður. Ég vil, frú forseti, vekja athygli á því að einnig hafa komið upp raddir um að skynsamlegra og kannski brýnna sé að vegurinn liggi um Sprengisand en um Kjöl. Það má auðvitað velta vöngum yfir því en eins og mál standa nú er niðurstaðan sú að Norðlendingar og Sunnlendingar hafa tekið höndum saman um stofnun hlutafélags til að reisa þennan veg. Kostnaður er viðráðanlegur og ég geri ráð fyrir að hinn venjulegi Íslendingur muni fagna því að menn skuli leita allra leiða til þess að auðvelda umferð um hálendið og milli landshluta og landsfjórðunga.

Það er mikill misskilningur ef menn halda því fram að það skemmi hálendið að það sé vel vegað. Einmitt hinir niðurgröfnu vegir og leiðinlegu vegir valda því að menn fara oft út af veginum, mynda nýjar slóðir og þar fram eftir götunum auk þess sem mikil hætta stafar af vegfarendum sem um þá vegi fara. Ég hlýt, frú forseti, að vekja athygli á þeirri umræðu sem er í þjóðfélaginu nú og endurspeglast m.a. í Morgunblaðinu.

Ég sé í Morgunblaðinu í dag á bls. 25 undarlega grein eftir Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann talar þar um að ég muni vera einn af stjórnarmönnum Norðurvegar. Betur að satt væri. Ég hefði gaman af að vinna að því að úr þessum áformum geti orðið en styð eins og ég framast má að úr þessu rætist. Hann talar um að þegar Héðinsfjarðargöng voru til umræðu hafi fengist þær upplýsingar að uppbyggður vegur um Lágheiði mundi líklega verða lokaður 10–14 daga á ári. Þetta er alls ekki rétt. Uppbyggður vegur um Lágheiði yrði lengur lokaður eins og prófessorinn getur gengið úr skugga um ef hann les þær skýrslur sem til eru um þetta hjá Vegagerðinni. Reistar voru þar snjóstikur og snjóalög könnuð ár eftir ár og talað við heimamenn. Hér fer því prófessorinn mjög villur vegar, en ég geri ráð fyrir að hann ætti að geta leitað eftir þeim upplýsingum hjá Vegagerðinni en ég þurfi ekki að vera milliliður milli hans og Vegagerðarinnar. En það er misskilningur hjá honum ef hann heldur að það fari eftir hæð vegar hver snjóþunginn er.

Fljótin og Lágheiði er mjög fræg fyrir mikil snjóþyngsli vegna þeirrar miklu úrkomu sem þar er. Við getum borið Lágheiði saman við t.d. Háreksstaðaleið. Lágheiði er 409 m, Háreksstaðaleið kannski rétt um 600 m þar sem hæst er, t.d. í Vegaskarði eru 500 og í Langadal við Svartfell 600. Það er mikill misskilningur ef hann heldur að Háreksstaðaleið sé lokuð fleiri daga á ári, svo er ekki. Það heyrir til undantekninga ef sú leið er ekki fær og þess vegna engin rök í málinu. Úrkoman ræður þessu. Það getur hvesst á Háreksstaðaleið eins og á öðrum heiðum. Það getur líka hvesst undir Esjunni, Hafnarfjalli og víðar svo það er ekki einsdæmi. Ég hygg að ekki þurfi að óttast það að á Kjalvegi séu einhver snjóþyngsli samanborið við á Lágheiði. Ég hygg að prófessorinn geti gengið úr skugga um það ef hann vinnur að því með þeim vísindalegu vinnubrögðum sem ætlast er til að prófessorar vinni eftir.

Það vekur mikla athygli mína að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, skuli sjá ástæðu til að lýsa yfir miklum efasemdum um hugmyndir um Kjalveg. Hann lýsir líka miklum efasemdum um álver við Húsavík. Ég veit ekki hvort hann gerir sér grein fyrir því hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og raunar líka á Suðurlandi að vegtengingin milli Norður- og Suðurlands komi. Mér er sagt að um 90% af ferðamönnum sem komi til landsins komi að Gullfossi. Þá verður greið leið norður. Ýmsir sækjast eftir að heimsækja Mývatn og Dettifoss. Þá er greið leið suður. Ef við Íslendingar ætlum á annað borð að styrkja ferðaþjónustu þannig að hún geti nýst vel í dreifbýli og úti á landi eiga landshlutarnir að vinna saman. Satt að segja er ömurlegt þegar menn í þessum sal reyna að beita sér gegn því að góðar samgöngur séu á milli landshluta og -fjórðunga. Það er mjög undarleg árátta hjá sumum að geta aldrei litið sé fjær en þurfa ævinlega að horfa niður fyrir tærnar á sér. Auðvitað er það svo hér á landi sem annars staðar að menn sækjast eftir að fá að kynnast náttúru landsins. Í þjóðgörðum erlendis — ég hef ekki farið víða en ég hef þó komið í þjóðgarða erlendis — þar leggja menn upp úr því að snyrtilega sé um landið gengið og þar eru góðir vegir með bundnu slitlagi, auðveldir yfirferðar sem eru auðvitað kjarni málsins. Þess vegna hlýt ég að láta í ljósi undrun mína yfir því þegar menn lýsa yfir andstöðu við þennan veg.

Hið sama má raunar segja um hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Hún situr í samgöngunefnd fyrir Samfylkinguna og er þingmaður Skagafjarðar. Ég get ekki séð í Morgunblaðinu í dag að hún sé jákvæð gagnvart þessari vegagerð sem vekur mikla furðu. Það yrði ekki ónýtt fyrir þá sem standa að verslun, þjónustu og ferðaþjónustu í Skagafirði að fá þessa beinu tengingu við Suðurland. Hvernig í ósköpunum gæti á því staðið að þingmenn Skagfirðinga yrðu andstæðir þessari vegagerð? Mér hafa raunar sagt stjórnarmenn í Greiðri leið að hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sé vegagerðinni hlynntur og vilji styðja hana. Ég vona að það sé rétt. Ég hef það ekki eftir hæstv. ráðherra, hann getur þá leiðrétt það ef rangt er með farið en ég skil það svo.

Nú er það einnig í Morgunblaðinu í dag að Bergur Sigurðsson lýsir yfir miklum efasemdum einnig um réttmæti þess að þar verði lagður vegur eftir stöðlum Evrópusambandsins. Með leyfi forseta, segir hann:

„Við erum ekki á móti malbikinu sem slíku. [ ... ] Vel lagður, malbikaður ferðamannavegur þarf ekki að valda sama raski og uppbyggð hraðbraut þvert yfir landið.“

Þurfa ferðamenn sem fara um hálendið ekki á góðum vegi að halda, uppbyggðum vegi? Getur ekki með litlum fyrirvara snjóað á hálendinu? Ætli Landverndin þekki ekki dæmi þess og hafi ekki kynnt sér ferðalög enn þann dag í dag á stöðum sem uppbyggðir eru hvernig fyrir fólki fer ef á annað borð brestur á hríð, stórviðri, og þarf ekki svo mikið til að koma. Auðvitað á að vanda til vegagerðar um hálendið og auðvitað eiga þeir vegir að vera upphleyptir.

Þetta viðhorf minnir raunar á þá erfiðleika sem við Norðlendingar eigum í varðandi vegagerð frá hringveginum niður að Dettifossi. Við höfðum náð því fram að sá vegur yrði boðinn út fyrir nær einu og hálfu ári. Unnið var að því að velja veginum stað í nánu samráði og samstarfi við Umhverfisstofnun og vissi Vegagerð ekki annað en þar væri allt með felldu og þeir væru sammála þeirri veglínu sem valin var. Síðan varð annað uppi á teningnum og Umhverfisstofnun lagðist gegn þeirri veglínu. Nú er svo komið að vegurinn dregst sennilega í tvö ár vegna þess að opinberar stofnanir eru að leika sér að málinu, þ.e. Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Skipulagsstofnun. Heimamenn verða að bíða á meðan eftir því að fá veg niður að Dettifossi. Það er eins og hinum opinberu starfsmönnum sé ekki kunnugt um að Kísiliðjan var lögð niður fyrir nokkrum árum þannig að sá rekstur sem var bakfiskur í atvinnulífinu í Mývatnssveit lagðist niður, annar kom ekki í staðinn og menn hafa verið að efla sig m.a. á sviði ferðaþjónustunnar. Auðvitað tapar þetta fólk, þessir einstaklingar í Mývatnssveit, fyrir norðan og ýmsir aðrir fjármunum þegar þeir komast ekki leiðar sinnar að þessari miklu gersemi, Dettifossi, öflugasta og kraftmesta fossi í Evrópu en fjöldi manna kemur til Íslands á hverju ári m.a. vegna þess að þá langar til að koma að þessum fossi.

Þetta er annað mál sem rétt er að huga að. Ég vil þess vegna beina því til samgöngunefndar þegar hún fær málið til meðferðar að kynna sér sérstaklega skipulagsmál og annað það er varðar fjallvegi og með hvaða hætti einstakar opinberar stofnanir geta tafið fyrir nauðsynlegum framkvæmdum sem Alþingi hefur ákveðið og er ráðist í að frumkvæði heimamanna og með fullri sátt heima fyrir. Maður hlýtur að bera kvíðboga fyrir þessu.

Ég óska ekki eftir því að tillagan verði samþykkt en á hinn bóginn óska ég eftir því að í tengslum við tillöguna kynni samgöngunefnd sér sérstaklega þær hugmyndir sem standa á bak við Kjalveg og skipulagsmál á hálendi Íslands.