133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[18:56]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa löngum verið skiptar skoðanir um á hvaða vegi eigi að byrja en við höfum aldrei fallist á að hætta að leggja vegi og þessar úrtölur hv. þingmanns koma mér mikið á óvart. Greið leið er ekki á móti því að lagður verði góður vegur um Uxahryggi. Af hverju er ekki bara stofnuð Vesturleið, hlutafélag um að leggja góðan veg um Uxahryggi? Það er enginn á móti því. Það er sjálfsagt mál.

En hlutafélagið sem ég er að tala um er að ræða um góðan uppbyggðan veg yfir Kjöl sem standist staðla Evrópusambandsins. Það er oft svo í þessum sal að þeir á vinstri vængnum vilja hafa vit fyrir fólki. Margir á vinstri vængnum, m.a. í sama flokki og hv. þingmaður, lögðust gegn Háreksstaðaleið og töldu að hún yrði ekki fær yfir veturinn. Um það heyrðust mjög neikvæðar raddir og úrtöluraddir þegar greið leið var lögð milli Norðurlands og Austurlands. En eins og ég sagði í ræðu minni áðan er vegurinn yfirleitt fær, þótt þessi fjallvegur komist upp í nærri 600 metra. Hann er nánast alltaf fær rétt eins og vegir niðri í byggð en auðvitað koma stöku sinnum ofviðri og stórhríð á landinu sem valda því að ekki er fært milli húsa. Það getur alltaf komið fyrir á Íslandi.

Hér er ekki verið að tala um að tefja fyrir öðrum framkvæmdum. Hér er ekki talað um að snúast gegn því að aðrir vegir séu lagðir. Ef hv. þingmaður hefur dug og döngun í sér til að stofna hlutafélag um að leggja veg um Uxahryggi skal ég vera fyrsti maður til að láta góð orð falla um það.