133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:06]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við Jóhannes Jónsson í Bónus eru samherjar í þessu máli. Ég sat fund Greiðrar leiðar á milli þeirra Eiðs Gunnlaugssonar í Kjarnafæði og Jóhannesar Jónssonar eins og sjá má í Morgunblaðinu frá þeim tíma. Það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að þessir tveir atvinnurekendur sem þurfa á því að halda að flytja mikið af vörum milli Reykjavíkur og Akureyrar eru áhugasamir um það að stytta leiðina sem eðlilegt er því að það lækkar auðvitað vöruverð, auk þess sem það dregur úr útblæstri. Þess vegna hljóta allir þeir sem vilja hugsa um umhverfismál, loftslagsbreytingar og annað þvílíkt að fagna því að hægt sé að stytta leiðina.

Að öðru leyti vil ég segja við hv. þingmann að samkvæmt fjárlögum, samkvæmt vega… — það heitir víst samgönguáætlun nú en hét áður vegalög, má sjá að byrjað er að leggja bundið slitlag á Kjalveg frá Gullfossi sem borgað hefur verið af almennu vegafé, eins og hv. þingmanni er kunnugt sem hefur aflað sér sérstakra upplýsinga um þetta mál. Hér er verið að ræða um að setja Kjalveg í einkaframkvæmd og það er rétt hjá hv. þingmanni að það gefur til kynna að menn vilji horfa fram á veginn. Ég er þakklátur fyrir þau jákvæðu ummæli sem fólust í ræðu hv. þingmanns varðandi einkaframkvæmd því að auðvitað er rétt hjá hv. þingmanni að ekki yrði farið í þennan veg eins og nú standa sakir nema fjár sé sérstaklega til hans aflað. Það er af þeim sökum sem Greið leið var stofnuð til þess að allur sá miklu fjöldi sem á leið suður og norður geti stytt leiðina og komist þannig með auðveldari og ódýrari hætti en nú er.