133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kann ekki við að það sem ég var að segja um þessi mál sé meðhöndlað með þeim hætti sem hv. þm. Halldór Blöndal gerði, að ég hafi verið með úrtölur hvað varðar vegamál. Ég held hins vegar að rétt sé að rifja það upp að sjálfstæðismenn hafa setið í samgönguráðuneytinu býsna mörg undanfarin ár. Hv. þingmaður var samgönguráðherra í ríkisstjórninni fyrr meir og nú situr annar ráðherra á eftir honum úr Sjálfstæðisflokknum líka. Hvað höfum við um þessi mál? Við höfum enga áætlun um hálendisvegi. Ekki hefur verið gerð nein könnun eða skoðun á því hvernig standa eigi að þeim málum. Auðvitað hlýtur það að koma til umræðu þegar kemur að því að menn vilja fara í framkvæmdir á þessum leiðum um hálendið. Hv. þingmaður hefur sjálfur flutt áður þá tillögu sem hann fer ekki fram á að verði samþykkt núna vegna þess að Jóhannes í Bónus og aðrir slíkir vilja fara aðra leið og hv. þingmaður er tilbúinn að hoppa á þá leið.

Mér finnst það vera fyrir neðan virðingu hv. þingmanns að flokka menn í hægri/vinstri eftir því hvaða afstöðu þeir hafa til vegamála. Ég hef aldrei séð hvernig hægt er að gera það. Ég veit ekki betur en að þingmenn landsbyggðarinnar hafi yfirleitt staðið saman í einstökum kjördæmum um að raða niður þeim leiðum sem helst þarf að taka á á hverjum tíma og ég kann ekki skil á því að þar hafi verið barist mjög um. Það kann að vera að svo hafi verið í kjördæmi hv. þingmanns en það hefur ekki verið í þeim kjördæmum sem ég hef verið þingmaður fyrir.

Ég vil líka færa það hér í tal að það kom fram hjá þeim sem tala fyrir þessari leið að þeir vilji fá þennan veg til eilífðareignar, selja aðgang um alla framtíð yfir þessa leið, og það hlýtur að þurfa að skoðast hvort menn vilja gera slíka hluti. Mér skilst að hæstv. samgönguráðherra hafi lýst því yfir að hann telji það ekki góðan kost og vilji heldur halda sig við þá leið sem farin var þegar Spölur gerði göngin undir Hvalfjörð þar sem fyrirtækinu var gefin tiltekinn tími til einkaleyfis á þeirri leið. Ég tel það vera algert úrslitaatriði gagnvart einkaframkvæmd á vegum að þannig sé að málum staðið að þetta sé ekki gert til mjög langs tíma heldur verði tíminn valinn út frá umfangi málsins og eðlileg tímamörk sett þar um og slík framkvæmd verði að lokum hluti af þjóðvegakerfi landsins eins og aðrir vegir.

Það er líka annað sem menn þurfa að velta fyrir sér í sambandi við Kjalveg og er skylt þessu. Það er að röksemdin fyrir gjaldtöku í Hvalfirði var á sínum tíma sú að menn gætu valið á milli þess að fara göngin eða aka fyrir Hvalfjörð. Þegar þeir sem ekið hafa Kjöl á undanförnum árum standa frammi fyrir læstu hliði á leiðinni, hvaða leið eiga þeir þá að velja? Ég sé ekki að þeir hafi um aðra leið að velja og þar með er komin einokun á ferðir á þessu svæði sem ekki hefur verið áður. Auðvitað þarf að ræða það mál. Þó að ég sé ekki að halda því fram með því sem ég er að segja að þessi leið sé útilokuð þá er a.m.k. lágmark að menn fari vandlega yfir hvernig þeir rökstyðja það að veita aðilum einkaleyfi á því að hleypa mönnum yfir landið eins og það felur í sér að gera þetta að einkavegi sem hér um ræðir.

Ég tel að það sé fyrir löngu kominn tími til að samgönguráðherra hysji upp um sig og taki á þessum málum, sjái til þess að þessar leiðir verði bornar saman og þær skoðaðar og að það liggi þá fyrir einhverjar hugmyndir um hvað sé skynsamlegt að gera á hálendinu í vegagerð, að það sé gert í samræmi við umhverfið og með fullri virðingu fyrir því. Ég ætla að bæta við að mér finnst ástæðulaust að vera með einhvern orðhengilshátt vegna slíkra orða sem eru af sama tagi og ég er hér að færa fram, eins og hv. þingmaður gerði vegna orða sem birtust í Morgunblaðinu eftir hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Mér finnst að svona umræða eigi að geta verið algerlega á skynsamlegum nótum þar sem menn skiptast á skoðunum og skoða hvort ekki þurfi að fara fram nánari skoðun á þessu máli eins og ég hef verið að lýsa. Ég tel það nauðsynlegt. Það kann vel að vera að ekki þurfi mikla yfirlegu yfir veginum yfir Kjöl. Ég hef ekki trú á að það verði miklar deilur í landinu um að þann veg eigi að gera betri en hann er en geri mér samt grein fyrir að það eru ekki allir á sömu skoðun og ég hvað það varðar. Við verðum að gefa fólkinu í landinu tækifæri til að hlusta á rök með og á móti því hve langt eigi að ganga í þessari vegagerð og sýna einnig fram á að gerð hafi verið sú skoðun á þessum málum að þar sé hugsað af skynsemi til lengri framtíðar.