133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:16]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ætli sé ekki styttra á milli okkar í skoðunum en hv. þingmaður vildi vera láta í fyrri ræðum sínum? Við erum auðvitað sammála um að ef farið er í einkaframkvæmdir eigi að standa að þeim með svipuðum hætti og gert var í Hvalfirði. En það er líka hægt að læra af samningunum sem gerðir voru um Hvalfjarðargöngin, t.d. að standa betur að málum hvað varðar fjármögnun en þar var gert. Þetta er einhver dýrasta framkvæmd sem um getur í Íslandssögunni vegna fjármögnunarinnar. Óhætt er að segja að hægt hefði verið að framkvæma það verkefni fyrir miklu lægri gjöld en menn hafa borgað, einfaldlega vegna þess að fjármögnunin fór fram með okurlánum, og þeir sem lánuðu fé til þeirrar framkvæmdar hafa aldrei grætt á öðru eins. Þetta þarf auðvitað að hafa í huga líka þegar verið er að hugsa um þessa hluti.

Ég endurtek hitt sem ég sagði áðan að ég tel að ekki sé frambærilegt frá yfirstjórn samgöngumála í landinu að hafa ekki látið skoða heildstætt það sem menn hugsa sér að gera í framtíðinni með vegum um hálendið og óbyggðirnar. Við þurfum einfaldlega að skoða þau mál vandlega og sjá til þess að allt sem þar er gert sé gert í sem mestu samræmi við náttúruna og í sátt við hana og unnið verði að sátt við það fólk sem vill vernda náttúruna svo við getum verið stolt af þeim vegum og framkvæmdum sem farið verður í á hálendinu.