133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

afnám stimpilgjalda.

50. mál
[19:32]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvæga þingsályktunartillögu sem felur í sér að fjármálaráðherra hætti að leggja stimpilgjöld á landsmenn. Í þingsályktunartillögunni er mælt með því að það verði gert í áföngum en mín vegna mætti og í rauninni væri þarft að hraða sér í þetta verk. Ég legg áherslu á að hafa þetta í áföngum í þingsályktunartillögunni til að gefa stjórnarliðum kost á því að taka undir tillöguna þannig að með samþykkt hennar muni það ekki raska einu né neinu varðandi fjárhag eða fjárhagsplön íslenska ríkisins.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir þjóðina. Stimpilgjöldin greiðast mestmegnis af einstaklingum og minni fyrirtækjum og heimilin í landinu skulda nú, samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands, um 1.270 milljarða íslenskra króna þannig að það munar um allt sem verður til þess að lækka bankakostnað heimilanna. Fólki hér í salnum hefur orðið tíðrætt um háan matarkostnað en hann hefur hríðlækkað sem hlutfall af útgjöldum heimilanna þó svo matarverð sé mjög hátt á Íslandi í samanburði við önnur lönd sem við berum okkur saman við.

Þetta mál skiptir gríðarlega miklu máli, þ.e. að afnema stimpilgjöldin. Það hefur komið fram í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar um kostnað heimilanna að þau kjör sem heimilunum er boðið upp á í bönkum landsins eru lök og skýrslunum sem ég vil minnast á ber nákvæmlega saman um það. Það er annars vegar skýrsla Samkeppniseftirlitsins sem kom út í ágúst á síðasta ári og hins vegar skýrsla Neytendasamtakanna sem kom út haustið 2005. Þessum skýrslum ber alveg saman um að íslenskir neytendur búa við bæði meiri vaxtamun en annars staðar á Norðurlöndunum, lántökugjöld og annar kostnaður er hærri en hjá nágrannalöndunum og síðan er sérstakt upptökugjald eða flutningsgjald á milli banka og þar á ofan eru stimpilgjöldin. En síðastnefndu þættirnir verða til þess að íslenskir neytendur eru bundnir á þann bás sem þeir eru komnir á í þeim banka sem þeir skipta við ef þeir á annað borð skulda háar fjárhæðir.

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni þá skulda íslenskir neytendur gríðarlega háar upphæðir, það eru um 5 millj. kr. á mann að jafnaði. Þess vegna er ekki mjög þægilegt fyrir íslenska neytendur að fara á milli banka því þá þurfa þeir að greiða þennan sérkennilega skatt sem eru stimpilgjöldin og þar á ofan eru uppgreiðslugjöldin. Það þarf að afleggja þetta til þess að Íslendingar búi við sömu kjör og nágrannaþjóðirnar. Þetta ástand er í rauninni ekki boðlegt og íslenskir neytendur ættu að ýta á eftir að þetta verði gert. En það er svo einkennilegt með þessa skattheimtu, ég hef heyrt fólk úr öllum flokkum segja að þetta gangi ekki upp, stimpilgjöldin séu í raun skattlagning sem komi í veg fyrir samkeppni. Slíkar raddir hafa þó lítið heyrst úr Sjálfstæðisflokknum enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið fjármálaráðuneytinu um árabil og í raun einnig forsætisráðuneytinu með stuttu hléi Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því í rauninni ráðið efnahagsstjórninni með þeim árangri sem nú blasir við, þ.e. há verðbólga og slæm kjör fyrir íslenska neytendur sem þurfa að greiða fyrir lánin háu verði.

Það er mjög þarft að aflétta stimpilgjöldunum þannig að íslenskir neytendur geti farið á milli bankastofnana. Það ástand sem ríkir núna er að samkeppni bankanna er nær eingöngu um fólk sem er að komast á fermingaraldur. Það er mögulega verið að auglýsa eftir börnum að koma með sparibaukana sína í bankana og síðan er auglýst eftir fermingarbörnum og svo eru það menntaskólakrakkar. Um síðastnefnda hópinn ríkir hörð samkeppni, jafnvel slagsmál inni í nemendafélögum með ýmis konar tilboðum og mikið auglýsingastríð í gangi. En fyrir þá neytendur sem eru í raun og veru komnir á krókinn ríkir ekki samkeppni. Maður sér sjaldan að bankar séu að bjóða almenningi, t.d. heimilum sem skulda kannski 25–30 millj. kr., að þeim séu boðin betri kjör með endurfjármögnun. En það má sjá að verið að bjóða námsmönnum einhverja betri yfirdráttarvexti. Þetta er kannski lýsandi ástand fyrir stöðu mála að þeir sem skulda mikið og greiða mikið í bankana, háan bankakostnað, það er engin samkeppni um þá. En væri þessu gjaldi aflétt og síðan uppgreiðslugjaldinu, þá mundi það án efa hleypa nýju lífi í samkeppni og lækka bankakostnað heimilanna. Það er enginn vafi í mínum augum hvað það varðar.

Það er annað sem er rétt að vekja máls á í þessari umræðu um háan bankakostnað heimilanna. Ný neyslukönnun Hagstofunnar bendir til þess að æ stærri hluti af kostnaði heimilanna fari í banka- og fjármálastarfsemi og maður veltir fyrir sér hvers vegna það sé. Ef einkavæðingin eða einkavinavæðingin sem staðið var fyrir skömmu fyrir síðustu kosningar hefði skilað ávinningi fyrir almenna neytendur þá hefði þessi kostnaður átt að lækka en ekki hækka. Hann hefur hins vegar hækkað gríðarmikið. Á sama tíma hefur gróði bankanna hækkað mjög mikið, síðustu tölur sem ég heyrði voru um 160 milljarðar kr. sem er gríðarhá upphæð. Þetta svarar til nálega helmings af útgjöldum ríkisins á þessu ári. Hér er því um háar upphæðir að ræða og það er vert að spyrja sig hvort ekki sé komið þvílíkt ójafnvægi í þessa hluti bæði hvað það varðar sem bankarnir taka til sín í gjöldum og síðan í vaxtamun, sem er meiri hér en annars staðar, að menn verði að gera eitthvað. Er ekki kominn tími til að ábyrg stjórnvöld taki á þessum málum?

Þær skuldir sem ég nefndi í upphafi, 1.270 milljarðar sem íslensk heimili skulda, eru mjög háar upphæðir. Til þess að setja þetta í samhengi eru það liðlega þreföld útgjöld ríkisins. Þetta er náttúrlega gríðarhá upphæð og það er sú upphæð sem vextirnir eru að tikka og sá gríðarlegi kostnaður sem leggst á, þannig að við verðum að leita allra leiða til að lækka þennan kostnað og það er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu að ná honum niður í stað þess að líta nær eingöngu til hás matarverðs. Í svipinn man ég ekki eftir nema einum sjálfstæðismanni sem hefur einhverju sinni minnst á að það þurfi að taka á þessu og afnema stimpilgjöldin og gott ef það var ekki í prófkjörsbaráttu. En eftir að þeirri baráttu var lokið þá hefur ekkert spurst til áhuga umrædds þingmanns á þessu máli og ekki er að sjá að umræddur þingmaður hafi séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu, þegar er verið að taka á þessu kosningamáli sem átti að vera til að fleyta honum áfram í prófkjöri sjálfstæðismanna. Þetta sýnir kannski það viljaleysi sem er hjá núverandi stjórnvöldum. En ég hef tekið eftir því að í stjórnarandstöðuflokkunum hafa menn skilning á þessu og við í Frjálslynda flokknum sjáum að þetta verður að breytast, það verður að hætta að skattleggja fólk fyrir að ætla að leita sér betri kjara.

Ef við setjum þetta dæmi upp hvað varðar önnur viðskipti, t.d. olíuviðskipti og samkeppni, og það er nú vert að ræða þau, og bankaviðskipti, ef við förum yfir málið og staðan væri sú hjá heimilum að ef þau þyrftu að skuldbinda sig til að kaupa bensín hjá ákveðnu fyrirtæki, t.d. Olíufélaginu kannski 3–4 ár fram í tímann eða jafnvel 25 ár en ætluðu síðan að leita betri kjara og fara yfir til Skeljungs þá þyrfti að greiða kannski 1% af heildarupphæð bensínkaupa næstu 10 árin. Það sjá allir að það er einfaldlega sanngirnismál að aflétta þessari skattlagningu, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni. Það mundi hleypa nýju lífi í bankamarkaðinn og sömuleiðis ef uppgreiðslugjöldin yrðu afnumin þá yrði það til þess að þeir sem skulduðu háar upphæðir og væru ábyrgir greiðendur yrðu eftirsóttir og fengju tilboð frá bönkum og lánastofnunum. Auglýsingarnar beindust því ekki eingöngu að fermingarbörnunum og menntaskólakrökkunum heldur fyrst og fremst að þeim sem skulda mikið og eru ábyrgir greiðendur.

Þessi þingsályktunartillaga skiptir verulega miklu máli og það verður fróðlegt að sjá þær umsagnir sem koma úr efnahags- og viðskiptanefnd en ég ætlast til þess að efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál til umsagnar og vísa því hér með til hennar. Það verður fróðlegt að sjá hvaða umsagnir koma og ég tel að vænta megi mjög jákvæðrar umsagnar frá Neytendasamtökunum en því miður er ég ekkert endilega viss um að það komi svo jákvæðar umsagnir frá banka- og fjármálastofnunum eða að þær leggi mikið kapp á þetta mál. Það er eins og menn vilji hafa þetta eins og þetta er á þeim bæjum en þó vonast ég til þess að þetta mál fái brautargengi. Það er ekkert vit í því að bankar sem hafa verið að fara inn í svokallað samkeppnisumhverfi ætlist til þess að allir neytendur séu bundnir inn í einhverja einokun í ákveðinni stofnun. Það fer einfaldlega ekki saman.

En ég er sannfærður um að þetta má muni ná í gegn og þeim mun fyrr því betra fyrir íslenska neytendur.