133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:13]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í byrjun síðustu viku gerði ég að umtalsefni landsþing Frjálslynda flokksins og orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um útlendinga sem hingað vilja koma. Ég fagna því að nú, 10 dögum síðar, hafi hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og aðrir þingmenn Frjálslynda flokksins áttað sig á því hvað ég var þá að tala um.

Ég benti þá á að mér líkaði illa þegar menn vildu velja útlendinga inn í landið á grundvelli m.a. sjúkdóma og sakaferils. Þetta kom allt fram í síðustu viku. Nú eru hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og aðrir þingmenn Frjálslynda flokksins að átta sig á því að þessi stefna Frjálslynda flokksins fellur bara ekki í kramið. Þessi stefna fellur ekki í kramið hjá þjóðinni eins og nýbirt skoðanakönnun sýnir. Þjóðin hefur hafnað hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Sigurjóni Þórðarsyni. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir. (Gripið fram í: … nema þér. …) Það er auðvitað mjög gott, hæstv. forseti, þegar hv. þingmenn Frjálslynda flokksins vekja athygli á jafngóðum pistlum þingmanna Framsóknarflokksins og hv. þingmaður Sæunn Stefánsdóttir flutti í Ríkisútvarpinu í fyrradag og hefur nú birt á heimasíðu sinni.

Það er ástæða til að ítreka það, hæstv. forseti, og vekja athygli á heimasíðu hv. þingmanns, saeunn.is, þar sem menn geta hlustað á þennan pistil og lesið til að fræðast betur. Stóra spurningin er hins vegar þessi: Hvað ætla hinir stjórnarandstöðuflokkarnir að gera? Hvað ætla þeir að ganga langt til að koma Frjálslynda flokknum í stjórn og hrinda þessari stefnu í framkvæmd?